„Á Star Wars kannski bara heima í kvikmyndahúsum? Það var það fyrsta sem ég hugsaði eftir að ég horfði á fyrstu tvo þættina af Obi-Wan Kenobi-seríunni. Ég var hrikalega spenntur fyrir henni en því miður voru þessir tveir þættir ekki að hitta í mark hjá mér,“ segir Hafsteinn, sem reynir ekki að dylja vonbrigði sín með fyrstu tvo þættina í hinni langþráðu Star Wars-seríu sem Disney+ streymdi á föstudaginn.

Hafsteinn Sæmundsson, Star Wars nörd.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

„Það er eitt atriði í fyrsta þættinum sem er mögulega asnalegasta atriði sem ég hef nokkurn tímann séð í sjónvarpsþætti. Þrír fullorðnir menn eru að elta litla tíu ára stelpu og þeir þurfa nauðsynlega að grípa hana. Hún nær samt einhvern veginn að flýja undan þeim og úr verður eltingaleikur sem er svo illa settur saman og svo ótrúlegur að ég trúði varla mínum eigin augum.

Þetta er allt eitthvað svo stirt, illa leikið og kjánalegt. Jafnvel barnalegt á köflum. Fyrir utan flottar tölvubrellur þá virkar þetta eins og einhver ódýr Sci-fi-sería. Vondu kallarnir eru ekki ógnvekjandi. Þau eru bara öll frekar asnaleg.

Það gerast líka hlutir í seríunni sem eru vægast sagt furðulegir. Án þess að fara út í spoilera, þá er mjög skrítið hvernig handritshöfundarnir fá Obi-Wan til að taka þátt í þessari sögu. Vonandi tekur sagan góðan kipp þegar Darth Vader mætir á svæðið og vonandi nær hann að rífa upp gæðin.“