Þetta er bara gaman. Það er bara gaman að geta opnað. Það verður hljóð og mynd og hægt að kaupa veitingar. Það er eina takmarkið núna,“ segir Hrönn Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Bíós Paradísar, sem ætlar að opna kvikmyndahúsið á föstudaginn hvað sem tautar og raular.

„Ég get bara ekki beðið eftir að hætta að vera einhver iðnaðarmaður og fara að reka bíó aftur,“ segir Hrönn sem hefur ásamt samstarfsfólki sínu og fjölda sjálfboðaliða lagt nótt við dag undanfarna mánuði við endurnýjun lífdaga kvikmyndahússins við Hverfisgötuna.

„Við viljum bara fara að opna dyrnar aftur fyrir gestum og halda áfram að vera bíó. Við getum bara ekki beðið eftir að fara að sýna fólki bíómyndir þótt það verði eitthvert smáræði eftir óklárað,“ segir Hrönn og bætir við að takmarkið sé einfaldlega að bíóið komist í gang. Restin verði svo bara kláruð á næstu vikum.

Katrín og Hrönn bíða spenntar eftir því að varpa heimildarmyndum á ný tjöld í endurnýjuðu Bíói Paradís.

Skjaldborg kemur í bæinn

Óhætt er að segja að nýtt líf bíósins hefjist með glæsibrag en á föstudaginn hefst þar Skjaldborg – hátíð íslenskra heimildarmynda í þriðju tilrauninni á þessu ári til þess að halda hátíðina sem venjulega fer fram um hvítasunnuhelgina á Patreksfirði.

„Við verðum bara að opna,“ heldur Hrönn áköf áfram og bendir á að þetta langa hlé á sýningum hafi gefið þeim tíma til þess að setja saman virkilega góða dagskrá. „Og það hefur nú verið vandamál eftir að kórónufaraldurinn skall á að það er ekkert til að sýna í öðrum bíóum en það er nú aldeilis ekki þannig hér. Við erum að frumsýna úrval nýrra mynda og byrjum bara með fullt prógramm og verðum náttúrlega með allar þessar íslensku heimildarmyndir á Skjaldborg.“

Þetta þolir enga bið! Það gengur mikið á enda ætlar Hrönn að opna bíóið fyrir gestum á ný á föstudaginn. Sama hvað.

Hrönn segir dagskrá hátíðarinnar sérlega spennandi og tekur Skjaldborg fagnandi í Reykjavík þótt hún eigi vissulega hvergi betur heima en á Patró þegar allt leikur í lyndi.

„Mér finnst þetta nefnilega ótrúlegt tækifæri núna fyrir borgarbúa sem hafa kannski ekki getað leyft sér það að fara til Vestfjarða á kvikmyndahátíð að geta upplifað Skjaldborg í fyrsta sinn. Vegna þess að Skjaldborg er að mínu mati skemmtilegasta kvikmyndahátíð í heiminum. Hún er skemmtilegri en Cannes. Í alvöru. Þetta er bara svona það sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara,“ segir Hrönn.

Aldrei verið öflugri

„Við snúum aftur öflugri en nokkru sinni fyrr,“ heldur Hrönn áfram og telur upp fasta dagskrárliði sem verða áfram á sínum stað: Svörtu sunnudagarnir, föstudagspartísýningar og pólskar kvikmyndasýningar og alls konar kvikmyndaviðburðir.

Ný sýningartjöld eru komin í salina og Hrönn segist ekki vita betur en að hún sé búin að festa kaup á einni fínustu sýningarvél landsins í Sal 1. „Þannig að myndgæði hafa aldrei verið jafn stórkostleg í Bíó Paradís áður. Það verður enginn svikinn af þessu.“

Fólkið sló skjaldborg um Bíó Paradís sem verður að þessu sinni athvarf Skjaldborgar sem hefur hrakist undan COVID frá Patreksfirði til Reykjavíkur.

Þá minnir Hrönn á nýja barinn sem verið er að setja upp og alls konar aðrar endurbætur sem ekki er tími né pláss til að telja upp hér en þó rétt að halda til haga að loftræstikerfið hefur verið endurnýjað og kyndingin er þar með komin í lag auk þess sem nú er hægt að sturta niður úr öllum klósettum.

„Þetta er Paradísin eins og þú hefur aldrei séð hana áður. Komin í nýja og glæsilega aðstöðu og við hefðum náttúrlega aldrei getað gert þetta án þeirra fjölmörgu sem lögðu hönd á plóg.

Fólk hefur verið að mæta hérna, án gríns, í sjálfboðavinnu trekk í trekk í trekk. Helgi eftir helgi. Fólk bara mætir. Það er æðislegt. Við sjálf erum náttúrlega búin að leggja dag og nótt við. Ekkert okkar hefur tekið sumarfrí og við erum búin að vinna flest allar helgar eftir að bíóinu var lokað í mars til þess að reyna að láta þetta verða að veruleika.“

Hrönn dregur heldur hvergi úr mikilvægi stuðnings Reykjavíkurborgar og menntamálaráðuneytisins. „Það voru þau sem leystu þennan hnút að lokum og ég er mjög þakklát, auðmjúk og spennt að halda áfram að sýna bíó.“

Stund milli stríða á milli þess sem verkin og skóflan tala.