Raunveruleikastjarnan Brynjar Steinn, eða Binni Glee, eins og hann er kallaður fór í fyrsta viðtal hjá MFM Miðstöðinni í dag.

Í viðtalinu var Binna greint frá því að hann væri með matarfíkn á lokastigi og lotugræðgi, sem er átröskunarsjúkdómur.

Binni segir í samtali við Fréttablaðið að greiningin hafi verið ákveðið sjokk þrátt fyrir að hann hafi vitað þetta innst inni.

Aðspurður hvað matarfíkn á lokastigi þýddi sagði Binni að hann kæmist ekkert dýpra en það. „Ég er á botninum í matarfíkninni.“

Vill opna umræðuna

Binni greindi frá því í Twitter-færslu á mánudaginn að hann ætlaði að leita sér aðstoðar við matarfíkn. Hann hafi átt í óheilbrigðu sambandi við mat frá því að hann man eftir sér.

Upphaflega hafði Binni ekki hugsað sér að leyfa fylgjendum sínum að fylgjast með ferlinu. „Ég var ekki að búast við svona miklum stuðning – það eru margir búnir að óska eftir að fylgjast með.

Ég ákvað að hafa þetta opinbert, það eru ógeðslega margir að díla við þetta,“ segir Binni og bætir við að hann vilji opna fyrir umræðuna um matarfíkn.

Enginn fullkominn

„Ég vil að fólk viti að það sé ekki eitt. Það eru svo margir sem hafa sagt mér að þetta sé tabú og að fólk skammist sín,“ segir Binni.

„Mig langar ekkert að vera skammast mín fyrir þetta, þetta er mitt líf,“ segir Binni og bætir við að enginn sé fullkominn. Hann ætli ekki að fela vegferð sína.

Binni Glee fór viðtal í dag þar sem
Mynd/Instagram skjáskot

Sextán vikna námskeið

Aðspurður hver næstu skref eru segir Binni að í febrúar hefjist 16 vikna meðferð, eða námskeið hjá MFM Miðstöðinni sem byggist á þremur megin atriðum; greina vandann, finna lausnina og framkvæmdina til lausnar.

Þá segist Binni jafnframt hafa leitað sér læknisaðstoðar, þá sé hann að fara í ýmsar rannsóknir til að kanna hvernig líkaminn sé að bregðast við.

Spenntur og stressaður

Binni segist ánægður með að vera búinn að leita sér hjálpar, „en ég er líka alveg stressaður.“ Hann segist einna helst stressaður yfir því að hitta allt fólkið sem hann verður með á námskeiðinu.

„Ég er félagsfælinn líka þannig að þetta verður erfitt útaf því,“ segir Binni en er fljótur að bæta við að þetta verði allt í lagi, allir á námskeiðinu séu í sömu sporum.

„Við erum öll að ganga í gegnum það sama,“ segir Binni spenntur og stressaður fyrir komandi tímum.

Binni Glee segist hafa borðað allt þetta áður en hann fór að sofa í gær.
Mynd/Instagram skjáskot