Sam­fé­lags­miðla­stjarnan Brynjar Steinn Gylfa­son, betur þekktur sem Binni Glee, er búin að taka matar­æðið í gegn og hefur lést um 45 kíló á síðast­liðnum tíu mánuðum.

„Á síðustu fimm árum þyngdist ég um fimm­tíu kíló og ég var eigin­lega í al­geru sjokki yfir því þegar ég vigtaði mig í fyrra hvað þetta væri mikið,“ segir Binni í sam­tali við Frétta­blaðið. Í kjöl­farið á­kvað hann að setja sér það mark­mið að missa fimm­tíu kíló.

„Ég er búin að vera að reyna í mörg ár að léttast en það hefur verið rosa­lega erfitt fyrir mig.“ Allir hafi verið að tala um ketó matar­æðið svo það lá beint fyrir að prófa það.

Léttist um 20 kíló á þremur mánuðum

„Ég byrjaði í lok septem­ber í fyrra á fullu,“ segir Brynjar en bætir við að hann hafi eytt mánuðinum á undan í venja sig af gosi og sæ­tindum.

„Ég var síðan á ketó í þrjá mánuði og á þeim tíma missti ég tuttugu kíló.“ Yfir jólin tók hann svo viku pásu en byrjaði á fullu að nýju um ára­mótin. „ketó matar­æðið er búið að fylgja mér síðan og á þessum tíma er ég búin að missa 45 kíló.“

Það eru því að­eins fimm kíló til stefnu þar til mark­miðinu er náð. „Það er samt bara fyrsta mark­miðið,“ segir Binni. „Aðal­mark­miðið er að komast í tveggja stafa tölu en ég verð enn­þá í þriggja stafa tölu þegar fyrsta mark­miðinu er náð.“

Binni segir það vera hvetjandi að sjá muninn á sér á myndum.
Mynd/Aðsend

Hreyfði sig ekkert í þrjá mánuði

Hingað til hefur Binni ekki stundað mikla hreyfingu sam­hliða nýja matar­æðinu en hann hyggst breyta því á næstunni. „Ég myndi segja að þetta hafi verið svona 80 prósent matar­æði og 20 prósent hreyfing, ég hreyfi mig smá en samt mjög lítið,“ viður­kennir hann og bendir á að hann hafi mætt á æfingu í gær í fyrsta skipti í þrjár vikur.

„Ég reyni að hreyfa mig en til dæmis þegar Co­vid kom þá hreyfði ég mig ekkert í þrjá mánuði.“ Það mun hins vegar breytast núna og stefnir hann á fleiri æfingar á næstunni.

„Þegar maður er búin að missa svona mikið á matar­æðinu fer að hægjast á og það fer að verða erfiðara að léttast.“ Binni tekur sem dæmi að á fyrstu þremur mánuðunum hafi hann misst 20 kíló en á síðustu rúm­lega sjö mánuðum hafi hann að­eins lést um 25 kíló. „Þetta eru samt háar tölur svo ég er alls ekki að kvarta.“

Fylgjendur Binna á samfélagsmiðlum hrósa honum daglega fyrir árangurinn.
Mynd/Aðsend

Elskar alla

Binni mælir hik­laust með ketó matar­æðinu og bendir á að það þurfi ekki að hætta að borða sætindi og skyndi­bita. „Ég fæ mér ketó pítsu einu sinni í viku og það er til ketó nammi sem ég borða á laugar­dögum. Þú getur gert svo mikið á ketó,“ segir Binni og minnist brauð­rétts sem hann bjó til í síðustu viku. „Það var svo gott ég trúði ekki að þetta væri hollt því þetta var alveg eins og venju­lega.“

Binni tekur and­köf þegar minnst er á við­brögðin við breytingunni á honum og segir orð ekki fá því lýst hversu vel fylgj­endur hans og vinir hafa brugðist við. „Ég elska alla, það eru allir svo næs.“

Fylgj­endur Binna hafa fylgst spenntir með veg­ferð hans síðustu mánuði og segist hann fá fjölda skila­boða og fyrir­spurna dag­lega. „Ég held ég fái hrós á hverjum degi á Snapchat og Insta­gram, sem er æði.“