Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Reykjavík, RIFF, býður venju samkvæmt upp á fjölbreytt úrval nýlegra heimildarmynda. Þær ellefu myndir sem sýndar verða að þessu sinni voru flestar frumsýndar á helstu heimildarhátíðum heims, svo sem Sundance, Tribeca, CPH:DOX og Alþjóðlegu heimildarmyndahátíðinni í Amsterdam.

Þá skoðar norska kvikmyndagerðarkonan Maja Borg BDSM í kristilegu ljósi í hinni mjög svo persónulegu Passion þegar hún freistar þess að sættast við sjálfa sig eftir að hafa slitið eitruðu sambandi.


Viðfangsefni myndanna er alls konar en þau snerta meðal annars á vínsmakkaraliði frá Simbabve, lessupönki, hugmyndaátökum í Íran og færeyskri stúlku sem hristir af sér hlekki strangkristins umhverfis.

Fjötrar fordóma

„Fólk er alltaf forvitið um þetta og hefur áhuga en það eru náttúrlega enn svo miklir fordómar í gangi,“ segir Katarina Hubner, stofnandi Reykjavík Ropes, en hán verður, ásamt Karól Kvaran, með kynningarnámskeið í reipisbindingum í tengslum við sýningu Passion.

Mynd/Markus Zahradnik

„Bindingar eru náttúrlega „bond­age“ og þetta er partur af BDSM. Algjörlega,“ segir Katarina um bindingarnar sem hán stundar ásamt félögum í Reykjavík Ropes og kenndar eru við japanska orðið „Shibari“ yfir sögnina að binda en stendur einnig fyrir ýmsar gerðir japanskra bindinga.

„En alveg eins og BDSM er þetta líka ekkert endilega bundið við eitthvað kynferðislegt. Allt sem við stundum innan ramma BDSM getur líka bara verið alls konar. Upplifun, nánd. Bara traust,“ segir Katarina sem stofnaði Reykjavík Ropes ekki síst til þess að reyna að sporna við skömm og fordómum tengdum BDSM.

„Þetta getur verið mismunandi eftir því hvaða manneskju maður er að binda með. Með sumum er þetta kannski mjög sexí eða kynferðislegt og með sumum bara alls ekki. Bara róandi og einhvern veginn bara traust og nánd.

Katarina segir að þótt bindingar geti verið mjög platónskar tengist lífseigustu fordómarnir aðallega hinu kynferðislega sem vissulega drottni yfir almennri umræðu um BDSM.

Alls konar þreifingar

„Það er aðallega smá skömm við þetta vegna þess að fólk heldur að þetta þurfi að vera erótískt. En það er það bara ekki,“ segir Katarina og bætir við að þetta snúist til dæmis alls ekki um nekt. „Það er enginn allsber á viðburðunum hjá okkur og við höfum öll verið á þessum stað að þora ekki.“

Passion er afar persónulegt ferðalag Maju Borg um BDSM senur evrópskra stórborga.
Mynd/Aðsend

Katarina bendir á að fólk komist síðan bara að því að þarna er kominn saman hópur af fólki með sama áhugamál. „Við erum bara að skemmta okkur saman, kanna og prófa okkur áfram með bindingar og langanir.“

Hán bætir við að bindingarnar séu ekki mjög flóknar í upphafi. Fólk þurfi aðeins að finna út hvernig upplifun það sækist eftir. „Það er bara langbest að finna manneskjuna sem maður vill binda með og þá þróast bara náttúrulega hvernig maður stundar þetta.

Þetta er margföld upplifun og getur verið alls konar,“ segir Katarina og segir mjög áhugavert hversu mikil ró fylgi bindingunum. „Þegar maður er bundinn þá kemst maður bara náttúrlega ekkert. Maður þarf að treysta manneskjunni sem er að binda mann.“

Úr eiturfjötrum

Hán segir gagnkvæmt traust algert lykilatriði og fólk ræði mikið saman um hvað þau vilji upplifa saman áður en byrjað er að binda og allt þurfi að vera samþykkt fyrir fram.

Maja Borg kannar skörun helgisiða innan BDSM og kristni í Passion.
Fréttablaðið/Samsett

Heimildarmynd Maju Borg snýst öðrum þræði einnig um traust en Passion er sögð hverfast um þrá, heilun og það að finna sér stað í tilverunni. Leikstjórinn reynir að finna nánd og setja mörk eftir að hafa losnað úr skaðlegu sambandi og leggur í myrkan og persónulegan rannsóknarleiðangur um BDSM- senur í Berlín, Stokkhólmi og Barcelona þar sem hún finnur mennskan, jafnvel andlegan, kjarnann í BDSM.

„Ég er mjög spennt að sjá myndina og verð búin að því fyrir kynninguna og verð vel undirbúin til þess að geta svarað spurningum áhorfenda,“ segir Katarina sem kynnir reipisbindingar, ásamt Karól, í kjölfar sýninga í Norræna húsinu klukkan 16.30 10. október.

Reykjavik Robes á Instagram.

Heimildarmyndir RIFF 2021

Ailey, Passion, Cannon Arm and the Arcade Quest, Radiograph of a Family, Rebel Dykes, Skál, The Most Beautiful Boy in the World, The Scars of Ali Boulala, The Story of Looking, The Village Detective: A Song Cycle, Blind Ambition.