Tölvuleikir

Far Cry 6

Leikarar: Giancarlo Esposito og Nisa Gunduz

Framleiðandi: Ubisoft

Fyrstu persónu-skotleikurinn Far Cry 6 frá Ubisoft er bilað skemmtilegur leikur en þó ansi líkur forverunum fimm. Leikurinn gerist á eyjunni Yöru, sem er einhvers konar blanda af Kúbu og öðrum eyjum í Karíbahafinu.

Þar bregður spilarinn sér í hlutverk Dani og ræður hvers kyns persónan er enda skiptir takmark Dani höfuðmáli; að flýja eyjuna fögru þar sem einræðisherrann Antón Castillo ræður öllu. Sá er leikinn af engum öðrum en Giancarlo Esposito, sem virðist ætla að verða fastur til eilífðar í hlutverki illmennisins Gus Fring úr Breaking Bad-þáttunum. Áherslur Dani breytast þó fljótt þegar illvirki einræðisherrans koma betur í ljós.

Ubisoft hefur fyrir löngu tryggt að Far Cry eru meðal bestu sandkassaleikja okkar tíma og sjötta innslagið festir seríuna enn frekar í sessi. Spilarar gera sitt besta til að berjast gegn einræðisherranum hvort sem það er á landi, lofti eða á sjó í hinum ýmsu farartækjum.

Leikurinn er gjörsamlega gullfallegur og PS5 er hér farin að hnykla vöðvana ansi hreint myndarlega í grafíkdeildinni. Yara er svo gríðarlega stór, eiginlega alltof stór. Þannig að það er nóg að gera en verkefnin verða alltaf af mjög svipuðum toga og ganga út á að berjast við her einræðisherrans, eyðileggja loftvarnabyssur, drepa yfirmenn heraflans og svo framvegis og svo framvegis.

Sagan er samt temmilega áhugaverð og þótt þetta sé svo til nánast sama formattið og í hinum leikjunum fimm er samt eitthvað sérstaklega sjarmerandi við Giancarlo Esposito í hlutverki illmennisins. Þá heldur samband einræðisherrans við son sinn manni sérstaklega spenntum fyrir framan tölvuskjáinn.

Spilaranum er síðan gert kleift að safna endalaust miklu af hlutum til að gera og græja byssurnar sínar og önnur vopn. Þetta er kunnuglegt stef í Ubisoft-leikjum en undirritaður er alltof latur til þess að nenna að standa í slíku. Auðveldast er að gúggla hvar bestu vopnin eru á risastóra kortinu og finna þau þannig.

Það skal tekið fram að undirritaður spilaði ekki Far Cry 5. Hins vegar spilaði ég bæði þann þriðja og þann fjórða og það er óhætt að fullyrða að þessi sjötti er sá besti af þeim þremur. Hann er bæði stærri, flottari og svo virðist sagan ætla að verða töluvert áhugaverðari.

Þó má spyrja sig spurninga um Far Cry heiminn og hversu lengi spilarar munu sætta sig við jafn keimlíka leiki, sögusvið og spilun. Svarið við því er líklegast: Töluvert lengi, enda stendur Far Cry 6 þrátt fyrir allt við sitt og tryggir spilurum góða skemmtun.

Niðurstaða: Far Cry 6 er sá besti til þessa í seríunni. PS5 hnyklar vöðvana og leiksviðið, Yara, er bæði risastór og líka brjálæðislega falleg. Spurningin er hins vegar hvort þreyttum Far Cry-spilurum muni finnast leikurinn örlítið of kunnuglegur.