„Veðrið er fréttir vikunnar. Það er hásumar og lengsti sólardagurinn á árinu var í vikunni og við sitjum hér í miklum kulda með snjó í fjöllum. Global warming hvað?“ segir og spyr Vigdís Hauksdóttir sem nýtur nú lífsins, frjáls undan skyldum sínum sem borgarfulltrúi síðustu fjögur ár.

„Og á sumrin hafa alltaf gengið hitabylgjur yfir Evrópu í gegnum tíðina, jafn langt aftur og ég man. Ég var í París 1993 í 42 stiga hita og er nýkomin heim úr 38 stiga hita á Mallorca,“ segir Vigdís og skilur ekki alveg við náttúruöflin, enda uggandi yfir nýlegum skjálfta við Langjökul.

„Ég er áhyggjufull yfir hversu jörð skelfur víða á landinu og spyr mig hvar næsta eldgos muni spretta upp.“

Vigdís fagnar hins vegar síðustu hræringum í miðbænum.

„Það er loksins búið að opna Lækjargötu almennilega og var tími til kominn. Ég hef aldrei heyrt um ódýrari leigu á heilli götu og fjölmörgum bílastæðum í tæp fjögur ár. 23.000 á ári! Það eitt og sér er hneyksli. Svo er á sama tíma verið að byggja fáránlegt timburverk á bílastæðunum við Frakkastíginn til að þrengja enn frekar að fjölskyldubílnum.

Ég keyrði þarna í vikunni og efast stórlega um að slökkvibílar komist niður götuna ef kviknaði í þarna, en það á reyndar við um miðbæinn allan eftir þrengingarstefnu liðinna ára. Bílahatrið gengur framar öryggi íbúa og rekstraraðila,“ segir Vigdís, greinilega enn á vaktinni.