„Staðurinn er með pínulitla og brothætta sál sem er að vaxa og dafna,“ segir Dóri DNA, veitingamaður á Mikka ref, sem hann opnaði í von um að veiran skæða færi að kveðja. „Við opnuðum fyrir um ári síðan og þekkjum í raun bara reksturinn undir þessum kringumstæðum. Við erum sem betur fer með góðan og dyggan kúnnahóp og bisnisshugmyndin var að þjónusta Þjóðleikhúsið, sem hefur verið opið mjög stopult.“

Dóri segir Mikka ref þó ganga sinn vanagang að einhverju leyti „og fólk er að hugsa til manns og hvernig gangi. Við ætlum ekki að kvarta of hátt en við þurfum að huga að uppáhaldsstöðunum okkar svo það verði ekki bara hamborgarastaðir eftir,“ segir Dóri og upplýsir og hann hafi flutt inn hundrað stykki af hvítum stuttermabolum sem eru merktir staðnum.

„Það er gott að kúra í þeim og vera töff í þeim,“ segir Dóri á léttum nótum og bætir við ögn alvarlegri: „Við vitum hversu bilað það er að við erum að selja boli hérna en þannig er ástandið á veitingamarkaðnum í dag, að vínbarir eru að selja boli.“

Dóri DNA á staðnum sínum, Mikka ref, í stuttermabol sem er til sölu.