Löng bið­röð hefur myndast í svo­kallaðri Ed Sheeran búð í Kringlunni þangað sem fólk sækir miða sína á stór­tón­leikana um næstu helgi. Lík­lega er um hátt í sex­tíu þúsund miða að ræða og þurfa allir að sækja þá í verslunina því þeir eru hvorki sendir í bréf- né tölvu­pósti.

Söngvarinn heldur tvenna tón­leika hér á landi, dagana 10. og 11. ágúst. Upp­selt er á fyrri tón­leikana en allir þrjá­tíu þúsund miðarnir ruku út á ör­skots­stund. Enn eru lausir miðar á síðari tón­leikana.

Eh Sheeran búðin var opnuð í júlí, eða sléttum fimm vikum fyrir tón­leikana. Á sama tíma fengu miða­hafar tölvu­póst með leið­beiningum og upp­lýsingum um hvernig þeir eiga að bera sig að fyrir tón­leikana; hvert þeir eiga að sækja miðana, hve­nær þeir geta gert það og svo fram­vegis, enda gilda um þetta strangar reglur, líkt og tekið er fram við upp­haf miða­kaupanna.

Í póstinum kemur fram að til þess að fá miðana af­henta þurfi fólk að sýna bæði greiðslu­kvittun og skil­ríki.

„Þú getur inn­­ritað þig inn á tón­­leikana með pappírs­­miðana, kvittunina og skil­­ríki við hönd. At­hugaðu að ef þú keyptir fleiri en einn miða getur þú sótt pappírs­­miðana fyrir allan hópinn í búðinni en þegar að tón­­leikunum kemur þurfa allir tón­­leika­­gestir í sömu pöntun að fara inn á tón­­leika­­svæðið á sama tíma, nema ef farið er í snemminnritun,“ að því er segir í póstinum.

Jafn­framt er tekið fram að hægt sé að sækja miðana á tón­leikunum sjálfum frá klukkan 16.00, en fólk er þó beðið um að sækja þá fyrir fram til að forðast raðir og bið­tíma á tón­leika­dag:

„Til að þetta gangi sem hraðast fyrir sig þá biðjum við miða­hafa að sækja miðann sinn á eftir­­farandi tímum í Ed Sheeran búðina í Kringlunni:

- Sitjandi miðar, fyrri tón­­leikar: fimmtu­­daginn 18. júlí

- Standandi miðar, fyrri tón­­leikar: föstu­­daginn 19. júlí

- Sitjandi miðar, seinni tón­­leikar: laugar­­daginn 20. júlí

- Standandi miðar, seinni tón­­leikar: sunnu­­daginn 21. júlí

At­hugið að búðin er opin á venju­­legum opnunar­tímum Kringlunnar til 11. ágúst og miðarnir verða til staðar þegar þú sækir þá, þannig að þú þarft ekki endi­­lega að koma fyrstu dagana, það er nægur tími til stefnu.“