Berglindi Rán Ólafsdóttur, framkvæmdastýru Orku náttúrunnar, svipar svo mjög til Katrínar Jakobsdóttur í útliti að hún verður ítrekað fyrir því að fólk, sem telur sig eiga sitthvað vantalað við forsætisráðherra, gefur sig á tal við hana.

„Já, já. Ég hef mikið tekið eftir því og því meira sem hún er í fjölmiðlum þá er ég oftar spurð hvort við séum systur eða frænkur,“ segir Berglind, sem alltaf er kölluð Begga, og hlær dátt þegar hún er spurð hvort hún hafi orðið þess vör að fólk sjái í henni tvífara Katrínar.

„Þetta er bara skemmtilegt og mjög fyndið. Það koma alveg vikur þar sem ég er oft spurð og þetta er sérstaklega slæmt núna,“ segir hún og kannski varla við öðru að búast þegar kosningabaráttan er í hámæli og framhaldslíf ríkisstjórnar Katrínar er undir.

Begga, Kata, Kata, Begga. Eða er það ekki annars?
Fréttablaðið/Samsett

Misskilningur í Melabúðinni

„Núna erum við líka með svipað hár og með svipuð gleraugu,“ segir Begga og flækjustigið hækkar síðan enn frekar við það að báðar búa þær í Vesturbænum, Kata og Begga, þannig að slíkur misskilningur sprettur ekki síst upp í Melabúðinni, sem má teljast einn helsti samkomustaður þeirra sem halda til í póstnúmeri 107.

„Þegar dóttir mín var í Melaskóla þá héldu margir bekkjarfélagar hennar að mamma hennar væri forsætisráðherra.“

„Það hefur alveg komið fyrir að fólk hefur alveg skammað mig fyrir að svara ekki einhverjum málum,“ segir Begga og hlær. „Stundum í Melabúðinni. Við erum báðar í Vesturbænum og þegar dóttir mín var í Melaskóla þá héldu margir bekkjarfélagar hennar að mamma hennar væri forsætisráðherra.“

Krafin um svör

Begga segist þó ekki vera orðin svo öflugur tvífari að hún taki að sér að svara fyrir pólitísk hitamál í stað Katrínar, enda gangi misskilningurinn sjaldan svo langt. Mest sé um að fólk staldri við og spyrji: „Bíddu er þetta ekki Katrín?“

„Síðan fattar fólk nú að svo sé nú ekki, en það hefur komið fyrir að ég hef verið stoppuð í Melabúðinni og svo hefst bara samtal um skattamál. Ég man líka eftir tilviki þar sem einhver vatt sér að mér: „Bíddu þú hefur ekkert svarað erindinu mínu,“ segir Begga, sem dró þá ályktun að ósvaraða erindinu hefði í raun verið beint til hennar. Ekki forsætisráðherra.

„Þannig að ég spurði hvort það varðaði hleðslustöð fyrir rafbíla, en þá voru það skattamálin og ég fattaði að hann hélt að ég væri Katrín.“

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra ásamt Katrínu – og þó? Eða Berglindi? Jafnvel báðum.
Fréttablaðið/Samsett

Bara skemmtilegt

Begga segir aðspurð að það sé henni alveg að meinalausu að vera ítrekað tekin í misgripum fyrir Katrínu. „Mér finnst þetta bara skemmtilegt sko og ekki leiðum að líkjast. Ég er bara ánægð með þetta. Mér finnst þetta bara krúttlegt og eins og ég segi þá er ég bara ánægð með að vera lík henni Katrínu Jakobsdóttur. Hún er bara frábær leiðtogi og flott. Þetta gæti verið miklu verra og böggar mig ekki neitt.“