At­hafna­mennirnir Jón Davíð Davíðs­son og Sindri Jens­son bíða nú í of­væni eftir að fá að opna nýjan nætur­klúbb í kjallaranum undir Hard Rock Café á Lækjar­götu. Jón og Sindri eiga þegar fataverslunina Húrra.

Jón og Sindri vinna að þessu verk­efni á­samt Ólafi Alexander Ólafs­syni sem er fyrsti starfs­maðurinn sem þeir réðu til starfa á Húrra á sínum tíma.

„Við erum í raun og veru að fara að opna þegar við megum opna,“ segir Jón. Staðurinn er að hans sögn svo gott sem til­búinn en á eftir að fá loka­út­tekt. Þegar það er komið og búið er að af­nema ná­lægðar­tak­mörk þá verður staðurinn opnaður.

Verk í vinnslu
Aðsend mynd

„Þetta er fyrst og fremst nætur­klúbbur,“ segir Jón en stefnt er að því að spila vin­sæla tón­list, pop, hip-hop og R&B. Þá verða einnig ein­hver hou­se og techno-kvöld auk lítilla við­burða, til dæmis tón­leika og uppi­st­önd.

Jón segir þá kollega hafa haft þessa hug­mynd í vinnslu í mörg ár og svo hafir þeir ný­lega dottið inn á þetta hús­næði. „Þannig að þetta er draumur að verða að veru­leika,“ segir hann.

Þeim langaði til að bæta þessari nætur­klúbba­stemmningu við flóruna á Ís­landi og töldu sig hafa eitt­hvað fram að færa í senunni. Þeir telja þessa upp­lifun ekki vera til staðar á Ís­landi eins og er .

„Við höfum ferðast víða og upp­lifað alls konar klúbba er­lendis. Við erum að taka upp­lifanir héðan og þaðan úr þessum stóra heimi, sama hvort sé í New York eða Las Vegas eða Kaup­manna­höfn, og búa til smækkaða út­gáfu af því sem hentar fyrir ís­lenskan markað,“ segir Jón.

Klúbburinn svo gott sem tilbúinn
Aðsend mynd