Heimilda­mynd Beyoncé um gerð plötunnar The Gift, sem inn­heldur tón­list úr Konungi ljónanna, var frum­sýnd á sjón­varps­stöð ABC í gær­kvöldi. Þar gefst að­dá­endum söng­konunnar færi á að skyggnast bak við tjöldin og fylgjast með ferða­lagi Beyoncé og fjöl­skyldu hennar um Afríku.

Heimildar­myndin fylgin Beyonce, eigin­manni hennar Jay Z og börnum þeirra Blue Ivy Car­ter, Rumi Car­ter og Sir Car­ter á ferða­lagi þeirra. Fjöl­skyldan talar opin­skátt um upp­lifun sína á Afríku­ferða­laginu og það mátti meðal annars sjá hina sjö ára Blue Ive synja við upp­tökur lagsins „Brown Skin Girl.“

Einnig birtast ein­staka klippur af tví­burunum, Sir og Rumi Car­ter, sem hafa vakið mikla lukku að­dá­enda fjöl­skyldunnar.

Fallegt augnblik fest á filmu þar sem má sjá Beyonce ásamt eiginmanni sínum og börnum.
Mynd/ABC

Vill veita stelpum inn­blástur

Beyonce hefur sjálf lýst plötunni, The Gift, sem ástar­bréfi hennar til Afríku. Þá sagði hún það alltaf vekja sterkar til­finningar innra með henni að ferðast til landa í Afríku. „Það er eins og það friði þann hluta af mér sem þráir tengingu við for­feður mína,“ sagði popp­drottningin.

Einnig ræðir Beyoncé um móður­hlut­verkið og segir megin­á­stæðu þess að hún geri tón­list sé til að veita dökkum stúlkum inn­blástur til að vera þær sjálfar. Hún tekur sér­stak­lega fram hversu mikil­vægt það sé að stúlkur séu sjálfs­öruggar og líði ekki eins og þær þurfi að að­laga sig sam­fé­laginu.

Beyonce fór með hlut­verk Nölu í nýrri út­gáfu bíó­myndarinnar Konungi ljónanna. Þá gerði hún einnig tón­list fyrir myndina og hefur lagið „Spi­rit“ slegið sér­stak­lega í gegn.