Solla í Gló

Sólveig Eiríksdóttir verður trúlega alltaf kennd við Gló enda sló staðurinn hennar og matargerð í gegn hjá landanum. Hún seldi hlut sinn í Gló árið 2019 en starfaði sem um skeið áfram sem ráðgjafi hjá Gló og herti þannig enn betur á órjúfanlegri tengingunni.

Steini í Kók

Þrátt fyrir að hafa selt hlut sinn í Vífilfell árið 2010 er Þorstein M. Jónsson enn ekki kenndur við neitt annað en Kók. Coke is it og Steini í Kók festist svo rækilega að það kemur bara ekkert annað í staðinn.

Solla í Gló og Steini í Kók.
Fréttablaðið/Samsett

Rósa á Spotlight
Rósu Guðmundsdóttur gengur illa að losna undan Spotlight nafninu. Hún var skemmtanastjóri staðarins í kringum síðustu aldamót og hefur eðlilega gert ýmislegt síðan þá. Hún hefur verið búsett í New York síðustu ár þar sem hún hefur starfað í skemmtanabransanum.

Svava í 17
Saga tískuveldisins 17 er orðin býsna löng og litskrúðug og Svava Johansen hefur rekið það með slíkum stæl að hún verður tæpast úr því sem komið er kennd við neitt annað en upphafið, sjálfa stofnunina sem verslunin 17 hefur verið í áratugi.

Rósa á Spotlight, Helgi í Góu og Svava í 17.
Fréttablaðið/Samsett

Bjössi og Dísa í World Class

World Class-hjónin, Björn Kr. Leifsson og Hafdís Jónsdóttir, sem hafa reynt að taka bumbuna af landsmönnum síðan 1985, eru eðlilega kennd við veldið sem byrjaði í örlitlu húsi í Skeifunni 3c en vöðvamassi þess hefir tútnað svo út síðan þá að nú eiga þau og reka átján líkamsræktarstöðvar og eru því eðli málsins samkvæmt þekktust sem Bjössi og Dísa í World Class.

Þríeykið
Alma Möller, Þórólfur Guðnason og Víðir Reynisson. Þríeykinu, sem hefur verið landsins stoð og stytta í Covid-faraldrinum, verður seint fullþakkað. Þau voru ýmsu öðru vön þegar þeim var þeytt fram í sviðsljósið þar sem þau töluðu kjark og þor í þjóðina þegar faraldurinn geysaði og öll sund virtust lokuð. Þau standa vitaskuld öll fyrir sínu, eitt og sér, en renna saman í hið eina sanna þríeyki í huga fjöldans.

Þríeykið goðsagnarkennda, Víðir, Þórólfur og Alma.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Helgi í Góu

Helgi Vilhjálmsson hefur komið brosi á landsmenn síðan fyrsti Hraunbitinn var framleiddur árið 1973 og þótt hann hafi komið víða við og meðal annars blakað djúpsteiktum kjúklingavængjum og lamið á lífeyrissjóðunum þá verður hann alltaf þekktur sem Helgi með Góu-nafnbótina.

Fleiri góð

Kalli í pelsinum, Heiða í Nikita, Villi Naglbítur, Biggi lögga, Krummi í Mínus, Elíza í Kölrassu, Kiddi vídeófluga, Finni á Prikinu, Guffi bílasali, Biggi Maus, Jói í Bónus, Sæmi rokk, Óli í Olís, Guðni rektor, Árni SAM.

Heiða Nikita, Kalli í Pelsinum, Eíza í Kolrössu og Biggi lögga.
Fréttablaðið/Samsett