Gamanleikkonan óviðjafnanlega Betty White kvaddi þennan heim á gamlársdag, rétt tæplega 100 ára, og aðdáendur hennar víða um heim syrgja réttsýna og kostulega konu og annálaðan dýravin sem var einkar lagið að sjá spaugilegar hliðar tilverunnar.

„Það er erfitt að segja hvað heillaði mig mest, það er náttúrulega bara þessi ótrúlega útgeislun og húmor. Svo veit maður að hún lifði ofboðslega mikið á sínum forsendum og kom ótrúlega vel fram við alla og af kærleik og af staðfestu, án þess að vera eitthvað dónaleg,“ segir Erla Björk Helgadóttir sem hefur lengi haft White í hávegum.

Hún segir Betty hafa verið sína uppáhaldsleikkonu frá því hún sá gamanþættina The Golden Girls á DVD en þeir voru sýndir í sjónvarpi 1985 til 1992. „Ég er ekki mikið kvikmyndanörd en síðustu ár hef ég leitað svolítið í þættina hennar,“ segir Erla sem segir einlægnina og húmorinn hafa dregið hana að White.

„Þetta byrjaði með Golden Girls fyrir einhverjum árum í gegnum vini en uppáhaldið mitt er Hot in Cleveland sem er svona síðasta serían hennar,“ segir Erla. Þar hafi leikkonan verið söm við sig, en örlítið meira í grófari kantinum en venjulega.

„Hún beitti sér á sviði mannréttindabaráttu með því að vera hún sjálf og gerði allt með húmorinn og kærleikann að vopni. Hún gerði það á sinn hátt,“ segir Erla og rifjar upp þegar White vakti heilmikla athygli fyrir sex áratugum þegar hún fór gegn samfélagsstraumum og réð þeldökka steppdansarann Arthur Duncan í þáttinn sinn.

„Þetta tíðkaðist ekki á þessum tíma, en henni var alveg sama. Hún stóð bara með honum. Hún lagði alltaf áherslu á að gera hlutina, í staðinn fyrir að segja ekkert og röfla yfir því.“

Anna Þóra Björnsdóttir, löngum kennd við gleraugnaverslunina Sjáðu, segir White hafa verið frábæra konu. „Þetta er náttúrlega bara mikill missir en það sem mér finnst flottast hjá henni er að deyja svona sautján dögum fyrir 100 ára afmælið sitt. Hver nennir að vera 100 ára? Og velja gamlársdag, þú veist. Eyðileggja giggið hjá öllum. Mér finnst það geðveikt,“ segir Anna Þóra sem gefur sér að um Betty White megi segja að sá hlæi best sem síðast hlær.

„Bara. Æ, sorrí, þið getið ekki notið gamlárskvölds. Mér finnst það ógeðslega smart. Ég hef alltaf litið upp til hennar þótt hún hafi verið þremur sentimetrum lægri en ég.“

Erla Björk Helgadóttir
Anna Þóra Björnsdóttir