Birkir Blær er upp­tekinn við stífar æfingar. Hann segist skipu­leggja æfingarnar sjálfur, en á­lagið hafi vaxið mikið. Nú flytji hann tvö lög á kvöldi í stað eins, og því hafi æfinga­tíminn einnig tvö­faldast. „Svo erum við að taka upp enda­laust af auka­efni, sketsa og fleira. Þetta er heill sjón­varps­þáttur, þannig að þetta er ekki bara söngur,“ segir hann léttur. „Núna erum við bara fjögur eftir, þannig að maður er alltaf í ein­hverjum tökum. En það er ó­trú­lega skemmti­legt,“ segir hann.

Þekktur úti á götu

Hann játar, spurður hvort að Svíar þekki hann úti á götu. „Já, maður er í sjón­varpinu einu sinni í viku, og maður er að­eins stoppaður úti á götu. Maður getur samt alveg farið út úr húsi,“ segir hann og hlær.
„Við fórum einu sinni að taka upp auka­efni, í tívolí. Við vorum bara stjörnur þarna, en flestir á­horf­endurnir eru krakkar, sem er ein­mitt enda­laust af, í tívolí. Þannig að þar voru bara heilar raðir að taka myndir af okkur,“ segir Birkir Blær. Sænskir fjöl­miðlar eru einnig dug­legir að sýna honum á­huga, auk þess sem sam­fé­lags­miðlar Birkis Blæs hafa stækkað mjög.
„Sam­fé­lags­miðlarnir eru að springa. Þeir eru ekkert risa­stórir samt, en eru búnir að tí­faldast, bók­staf­lega. Það er alveg rosa­legt.“

Lærði tungu­málið í keppninni

Birkir Blær talaði ekki sænsku þegar hann fór út, en lét það ekki stöðva sig. Í dag gerir hann sér lítið fyrir og spjallar hann á málinu fyrir framan milljónir á­horf­enda.
„Ís­lenska og sænska eru svo­lítið lík mál. Maður fer bara að fatta hvernig þetta virkar. Þetta er rosa­lega svipað í rauninni,“ segir hann. „Ég talaði ekki sænsku þegar ég fór út, en ég lærði grunn áður en ég fór. Svo lærði ég þetta í keppninni,“ segir hann. „Þetta er spurning um að tala eins mikla sænsku og maður getur. Og það er betra að ruglast en að læra ekkert.“ Hann segist vissu­lega hafa ruglast. „Ein­hvern tímann sagði ég eitt­hvað vand­ræða­legt, en það var ekki sett inn í þáttinn. Þau klipptu það bara út.“

Ed Sheeran er einn vinsælasti tónlistarmaður heims og hefur selt um 26 milljónir plata á ferlinum.
Fréttablaðið/Getty

Spjallaði við Ed Sheeran

Ed Sheeran heim­sótti kepp­endur sænska Idolsins á einum tíma­punkti, en við það rættist draumur Birkis Blæs, sem segir Sheeran einn af sínum stærstu á­hrifa­völdum í tón­listinni.
„Ég er sjúk­legur Ed Sheeran að­dáandi og þetta var það skrýtnasta sem hefur komið fyrir mig í lífinu,“ segir hann. „Ég fékk að vita þetta með smá fyrir­vara en ég hefði þurft þrjá mánuði til að undir­búa mig. Ég er enn að melta þetta,“ segir hann. „Hann er rosa­lega eðli­legur gæi.“
„Hann á­ritaði gítarinn minn, sem er svona signa­ture-Ed Sheeran-gítar. Þessi minning mun vara svo­lítið lengi,“ segir Birkir Blær.
„Ég sagði honum bara að hann hefði haft mjög mikil á­hrif á tón­listina mína. Ég hefði fundið hann þegar ég var yngri og það hafi fengið mig til að byrja að syngja,“ segir hann. Hann segist hafa byrjað að spila á gítar, en söngurinn hafi svo komið þegar hann byrjaði að syngja með lögum Sheeran.

Fjöl­breytnin er styrk­leiki

En heldur Birkir Blær að hann sigri keppnina?
„Ég bara veit það ekki. Það eru topp fjórir að keppa, en sama hvað gerist er ég rosa­lega stoltur af því hvað ég er búinn að komast langt. Það væri skemmti­legt að fá að vinna, en hver sem er gæti unnið. Við erum bara mis­munandi týpur,“ segir hann og vísar til hinna kepp­endanna.
Hann segir helstu styrk­leika sína í keppninni vera fjöl­breytni. „Ég hef hlustað á og spilað marga stíla og það hefur hjálpað mér svo­lítið og komið fólki á ó­vart,“ segir hann. Stundum hef ég verið að syngja hart rokk, og svo næsta kvöld ultra power-ballöðu, næst soul-lag og svo blús. Það hefur verið styrk­leiki. Svo finnst fólki mjög gaman að maður kunni á gítar.“

Flókinn samningur á sænsku

Verð­launin í keppninni eru samningur hjá út­gáfu­fyrir­tækinu Uni­ver­sal. „Þetta er upp á 10 lög eða eitt­hvað svo­leiðis. Það er al­gjör snilld. Svo er ein­hver peningur líka,“ segir hann. „Eg er ekki alveg með á hreinu hvað það er mikið, þetta var ein­hver flókinn samningur sem var allur á sænsku,“ segir hann og hlær. „En ég er spenntastur fyrir kynningunni, þessu tæki­færi til að koma sér á­fram. Sér­stak­lega varðandi samninginn.“
Öll fjöl­skyldan hans keypti miða á loka­kvöldið, og því segist hann ekki ætla að hringja í neinn ef hann landar sigrinum. „Ég fer þá bara að hitta fjöl­skylduna og slaka að­eins á, og ...,“ hann þagnar og hugsar sig um. „Nei, ég mun keyra beint í það að hamra járnið. Semja og finna kontakta. Al­vöru vinnan fer af stað þegar þetta er búið, sama hvernig fer.“
Hann segist stefna á að koma heim til Ís­lands um jólin, en loka­kvöld keppninnar er 10. Desember. „Ég er búinn að vera að segja við sjálfan mig í tvo og hálfan mánuð að það séu tveir mánuðir í loka­kvöldið, en núna er það bara ein og hálf vika,“ segir hann.