Þeir sem trúa á mátt þolæfinga segja að þær brenni hitaeiningum af mestum krafti með því að auka hjartsláttinn en þeir sem vilja frekar lyfta segja að besta leiðin til að losa sig við aukakílóin sé að auka vöðvamassa, því hann valdi því að líkaminn brenni meiru yfir daginn.

Margir telja að þolæfingar séu betur til þess fallnar að léttast, en rannsóknir sýna að vöðvar kosta mikla orku og valda töluverðri brennslu. Þannig að því meiri vöðvar, þeim mun hraðari efnaskipti og það getur valdið þyngdartapi. Æfingar með lóðum geta líka komið í staðinn fyrir þolæfingar ef réttu æfingarnar eru notaðar. Samkvæmt rannsóknum Mayo Clinic, einnar frægustu og virtustu lækningastofnunar heims, getur hálftíma ketilbjölluæfing til dæmis auðveldlega brennt fleiri hitaeiningum en klukkutíma göngutúr eða hálftími af fjallgöngu, dansi eða sundi.

Skiptir mestu að mæta

Einkaþjálfarinn Sarah Carr hélt því fram í viðtali við Insider að styrktarþjálfun væri betri til lengri tíma litið því að þegar þú stundar þolæfingar sértu bara að brenna hitaeiningum á meðan þú ert að æfa, en að eftir æfingar með lóð verði efnaskipti líkamans hraðari klukkustundum saman og því haldi líkaminn áfram að brenna hitaeiningar í langan tíma.

Dr. Andy Galpin sem er læknir, styrktarþjálfari og aðstoðarprófessor við Ríkisháskóla Kaliforníu í Fullerton, segir hins vegar í samtali við Men’s Health að bæði þeir sem trúa á mátt þolæfinga og styrktaræfinga hafi nokkuð til síns máls. Brad Schoenfeld, sem er virtur styrktarþjálfari og aðstoðarprófessor í íþróttafræði við Lehman-háskóla í New York, bætir við að munurinn á brennslunni sem fæst við þolæfingar og styrktaræfingar sé það lítill að fæstir taki eftir honum.

Schoenfeld segir að það sé ekki til nein ein rétt æfing eða gerð af æfingum, heldur sé þyngdartap yfirleitt einfaldlega afleiðing af því að leggja hart að sér og bætir við: „Besta æfingin sem þú getur gert til að létta þig er sú sem þú gerir reglulega.“ Ef þú hatar til dæmis að hlaupa eru litlar líkur á að skokk sé að fara að hjálpa þér að léttast, því það er ekki líklegt að þú stundir það reglulega.“

Dr. Galpin tekur í sama streng og segir að regluleg ástundun og áreynsla ráði hvað mestu um þyngdartap. Hann viðurkennir að það sé ekki sérlega skemmtilegt svar, en ítrekar að fæstir taki eftir miklum mun á þyngdartapi milli æfingategunda. Aðalmálið er að vera ekki að reyna að gera æfingar sem maður hatar til að ná markmiðum sínum.

Fögnum fjölbreytileikanum

Best er að blanda saman þol- og styrktaræfingum til að fá það besta úr báðum áttum. Dr. Galpin segir að það sé engin þörf á að stunda æfingar sem þér finnst ekki skemmtilegar í miklu magni, en það geti verið gagnlegt að breyta til svo manni fari ekki að leiðast, því það hjálpi við að viðhalda ástundun. Hann bendir líka á að endurtekið álag á sömu líkamshluta geti valdið álagsmeiðslum og það sé önnur ástæða til að breyta til.

Það eru líka fleiri leiðir til að léttast en bara líkamsrækt. Í fyrsta lagi er mataræði mjög mikilvægt og ef það er slæmt getur það eitt komið í veg fyrir að árangurinn af líkamsrækt skili sér, svo það er mikilvægt að taka til þar. En Schoenfeld ráðleggur fólki líka að reyna bara að vera virkt almennt séð. Líkaminn er alltaf að brenna hitaeiningum þannig að það er gott að gera hluti eins og að fara í göngutúra, standa yfir daginn og sinna heimilisstörfunum. Það hjálpast allt að, segir hann.

Hann ráðleggur fólki líka að einblína ekki á kílóatöluna þegar kemur að hreyfingu, heldur hugsa um hvaða markmið það hefur og velja æfingar út frá því. En vilji fólk einfaldlega líta vel út og líða vel sé best af öllu að blanda saman þol- og styrktaræfingum.