Nú í kvöld er World Class barþjónakeppnin haldin í fjórða sinn á Íslandi. Þrisvar áður hafa Íslendingar sent fulltrúa sinn í keppnina, til Miami, Mexíkó og Berlínar, en þetta árið fer keppnin fram í Glasgow. Í kynningu um keppnina er skrifað að tilgangur hennar sé að auka á upplifun, auka gæði og fá meiri þekkingu í kokteila-menninguna hérlendis. Metnaður íslenskra bara hefur stóraukist síðustu ár, og má að mörgu leyti þakka keppninni það. Þetta er nokkurs konar uppskeruhátíð kokteil-unnenda og íslenskra barþjóna.

Keppnin úti er sú stærsta og virtasta sinnar tegundar í heiminum. Barþjónar hvers lands skrá sig í keppnina að hausti og þurfa svo að sækja ýmis námskeið, fræðslu og viðburði yfir árið til að safna stigum. Eftir hvert námskeið þarf hver barþjónn að skila inn drykk. Hann er dæmdur út frá bragði, framsetningu og hversu vel var farið eftir þema námskeiðsins.

Þrír dómarar fara líka um alla borgina og dæma barþjónana sem taka þátt í keppninni. Rúmlega þrjátíu barþjónar skráðu sig til leiks síðasta haust og fyrr í vor var greint frá hverjir tíu taka þátt á úrslitadaginn. Fyrripart dagsins í dag tekur topp tíu hópurinn þátt í ýmsum þrautum, meðal annars í keppni sem er fólgin í því að barþjónunum eru fengin skotglös, en þau eru öll svört á lit svo innihaldið sést ekki. Í glösunum eru svo mismunandi áfengistegundir og þurfa keppendur ekki einungis að greina tegundina, heldur líka frá hvaða framleiðanda innihaldið er. Í lok dags er svo tilkynnt hvaða fjórir barþjónar taka þátt í lokakeppninni.

Í kvöld klukkan átta mun lokaúrtakið þurfa að gera átta ólíka kokteila á jafn mörgum mínútum, en þetta gera þeir uppi á sviði fyrir framan áhorfendur. Kúnstin snýst um samhæfingu og framsetningu en þeir eru í raun að gera alla kokteilana samtímis. Að sögn Sóleyjar Kristjánsdóttur, annars framkvæmdastjóra keppninnar, getur þetta reynst ótrúlega spennandi og mikið sjónarspil fyrir áhorfendur. Hún segir alla geta haft gaman af, þrátt fyrir að hafa engan sérstakan áhuga á kokteilagerð.

Dómaraliðið er skipað sigurvegurum síðustu ára ásamt einum af bestu barþjónum heims, Kevin Pardnote. Að keppni lokinni er svo tilkynnt hver er besti barþjónn Íslands árið 2019 og sá fer út að keppa fyrir Íslands hönd þetta árið.

Húsið verður opnað klukkan 20.00, en keppnin fer fram á Kjarvalsstöðum við Klambratún.