Rannsóknin sem birtist í nýjustu útgáfu Current Biology sýnir að kettir, líkt og börn og hundar, mynda bæði örugg og óörugg tengsl við eigendur sína. Þessi hæfileiki til tengslamyndunar milli tegunda er því ekki tengdur við hunda eingöngu eins og oft hefur verið haldið fram.

Vísindafólkið sem framkvæmdi rannsóknina segir að kettir líkt og hundar sýni félagslegan sveigjanleika í tengslum við eigendur sína. Rannsóknin sýndi að flestir kettir myndi örugg tengsl við eigendur sína og upplifi öryggi hjá þeim ef þeir eru í umhverfi sem þeir þekkja ekki.

Ein aðferð sem gjarnan er notuð til að rannsaka tengslamyndun mannfólks er að skoða hvernig ungbörn bregðast við þegar foreldri eða umönnunaraðili birtist aftur eftir stutta fjarveru í framandi umhverfi. Ef ungbörnin eru í öruggum tengslum við umönnunaraðilann verða þau strax róleg og byrja að virða fyrir sér umhverfið þegar hann birtist aftur. Ef tengslin eru óörugg byrjar barnið að sýna þörf fyrir óvenju mikla nánd við umönnunaraðilann eða öfugt. Forðast nándina.

Svipaðar aðferðir hafa verið notaðar til að rannsaka tengslamyndum apa og hunda, svo í þessari rannsókn var ákveðið að gera sams konar rannsókn á köttum.

Bæði kettir og hundar hafa hæfileika til tengslamyndunar. NORDICPHOTOS/GETTY

Flestir kettir eru tengdir eigendum sínum

Rannsóknin fór þannig fram að fullorðinn köttur og kettlingur dvöldu í ókunnugu herbergi með eiganda sínum í tvær mínútur og voru svo áfram í herberginu í tvær mínútur án eigandans. Eftir þann tíma kom eigandinn aftur inn í herbergið. Viðbrögð kattanna við endurfundunum voru skilgreind sem mismunandi tegundir tengslamyndunar.

Niðurstöðurnar voru þær að kettirnir mynda tengsl á ótrúlega svipaðan hátt og ungbörn. 65% ungbarna eru í öruggum tengslum við aðal-umönnunaraðila sinn. Rannsóknin sýndi að hlutfallið er það sama hjá heimilisköttum, 65% þeirra höfðu myndað örugg tengsl við eigendur sína. Það átti jafn við um kettlingana og fullorðnu kettina.

Niðurstöðurnar sýna að tengsl katta við mannfólk eru örugg og til staðar hjá köttum fram á fullorðinsár. Þessi hæfileiki katta til tengslamyndunar gæti verið ástæða þess hvers vegna sambúð katta og mannfólks á heimilum mannfólksins hefur gengið svona vel í aldaraðir.

Aðstandendur rannsóknarinnar eru nú að skoða hvaða áhrif þessi tengslamyndunarhæfileiki hefur á ketti og kettlinga sem enda í kattaathvarfi fyrir heimilislausa ketti og hvort þeir nái að mynda örugg tengsl við mannfólk ef þeir fá reglulegan félagsskap við fólk eða eru teknir í fóstur.