Lydía Ósk Óskarsdóttur stendur vaktina á Hornströndum í sumar ásamt þremur öðrum. Hún stendur einnig vaktina í Hornstrandastofu, nýrri gestastofu á Ísafirði, sem er upplýsingamiðstöð um Hornstrandir og sýning um svæðið.

„Við erum tvær sem skiptumst á að vera á gestastofunni og fara á svæðið sem landverðir. Svo eru tvö sem eru bara á svæðinu. Við sem skiptumst á erum í tvær vikur í einu á Hornströndum. Við erum með hús á Hesteyri, en ríkið keypti nýlega húsið sem var verslunarhús á staðnum. Við erum búin að innrétta búðina sem móttöku fyrir gesti,“ segir Lydía.

„Við erum líka búin að útbúa vatnssalerni fyrir gesti sem ekki var áður. Við erum komin með einstaklega flotta og fína aðstöðu á Hesteyri. En svo erum við með aðra aðstöðu í Höfn í Hornvík. Þar erum við með hús og vatnssalerni og við aðstoðum líka gesti þar. Svo eru tjaldstæði og kamrar á fleiri stöðum á Hornströndum,“ útskýrir hún.

Hornbjarg séð frá Höfn í Hornvík. Fjöldi göngugarpa leggur leið sína á Hornstrandir á sumrin að njóta náttúrunnar.

Lydía segir að það sé alltaf fullt af fólki sem komi á Hornstrandir á sumrin en landverðirnir eru þar frá 1. júní og út ágúst.

„Þetta er á sama tíma og bátarnir eru að fara yfir. Við fylgjumst að,“ segir Lydía.

Þrátt fyrir að það sé alltaf eitthvað fólk á Hornströndum ríkir þar mikil friðsæld að sögn Lydíu.

„Þetta er það stórt svæði. Þú mætir kannski 4-5 á leiðinni frá Hesteyri og alla leið yfir í Hornvík. Allir eru meðvitaðir um að fólk er bara að njóta náttúrunnar,“ segir hún.

„Það er ekki mikið af Íslendingum á svæðinu í júní. Þeir ferðast meira í júlí þegar það er orðið hlýrra og minni snjór. En landvörður sem gekk frá Hesteyri yfir í Hornvík á mánudaginn var mjög hissa að sjá hvað það var mikið af tjöldum í Hlöðuvík. Það var líka fullt af fólki á tjaldstæðinu í Hornvík, en það eru fáir í dag. Veðrið hefur mikið að segja. Íslendingar fara frekar ef veðrið er gott.“

Landvarðahúsið í Höfn í Hornvík.

Fjölbreytt starf

Lydía segir starfið á Hornströndum fjölbreytt. Á Hesteyri taka landverðirnir á móti gestum í fjörunni, leiðbeina göngufólki og kynna því reglur friðlandsins. „Við kennum þeim til dæmis hvernig á að umgangast refinn og yrðlingana en þeir eru að skríða út úr grenjunum sínum í júní,“ segir hún.

„Við erum líka að slá og gera fínt á Hesteyri. Svo göngum við gönguleiðirnar reglulega. Við förum kannski í dagsferðir frá Hesteyri yfir í Aðalvík til að þrífa kamra og athuga með tjaldsvæðið.“

Lydía segir landverðina einnig vera í góðu sambandi við heimafólkið.

„Það er mikið af sumarhúsum hér. Þessum gömlu húsum sem voru hér hefur verið vel við haldið og fólk notar þau á sumrin, svo hafa líka verið byggð ný hús. Fólk er hér sumt allt sumarið,“ segir Lydía.

Á gestastofunni á Ísafirði veita landverðirnir göngufólki upplýsingar um svæðið, selja göngukort, aðstoða gesti við að skipuleggja ferðirnar sínar og fleira.

„Við förum sjálf inn á svæðið og tökum út göngustíga og skoðum aðstæður. Það er til dæmis mikill snjór núna og við bendum fólki á hvar það á að vara sig. Hvar eru ár og hvar eru snjóskaflar og hvar er bratt að fara upp og niður. Við hvetjum fólk til að fylgja göngukortinu,“ segir Lydía.

„Við erum líka með sýningu hér á gestastofunni sem er tileinkuð fólkinu sem bjó á Hornströndum og lífinu þar. Við leggjum áherslu á fuglabjörgin og hvernig farið var þangað að sækja björg í bú.“

Lydía segir landvarðarstarfið vera besta sumarstarf í heimi.

„Ég held að hinir landverðirnir séu algjörlega sammála því. Ég er ættuð úr Jökulfjörðum svo þetta er svona mitt heima. Mér finnst frábært að fá að vera inni á svæðinu. Hugsa um það, skoða það og kynnast því betur, og líka hitta fólk og segja því frá því sem við vitum um svæðið. Við brennum fyrir þessu og langar að halda svæðinu góðu og gera vel við gestina okkar.“

Sældarlíf landvarðarins í kyrrðinni á Hornströndum. Lydía segir að þrátt fyrir fjölda ferðamanna sé landsvæðið stórt og því ríki þar mikil ró og friður.