„Ég byrjaði að vinna á malbikunarstöðinni Höfða árið 1988, þá nítján ára gamall, og þótt tímakaupið hafi verið lágt voru launin há vegna mikillar vinnu. Ég hef svo verið þar öll sumur síðan, fyrir utan í fyrrasumar þegar atvinnuleysi var vegna COVID, og fer aftur um leið og ég hætti störfum á þingi í haust,“ segir Píratinn Jón Þór Ólafsson sem fyrst settist á Alþingi Íslendinga beint úr malbikinu á Höfða árið 2013.

„Það sem heillar mig sem starfsmann á plani er að hafa hugann frjálsan. Þess vegna kem ég alltaf aftur. Svo birtast töfrarnir við malbikunarstarfið á ólíklegustu stöðum, eins og í bláum reyk úr gömlum vörubíl sem hangir í kyrru morgunloftinu og lyktin af malbiki sem minnir mig á vorið.“

Jón Þór segir vel hægt að bjarga sér sjálfur með stöku malbiksholur. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

Malbikaði Bláfjallaveg

Jón Þór getur með sanni og stolti tengt verk sín víða um malbikaðan farinn veg.

„Já, ég var einmitt að segja krökkunum mínum, á leið okkar í Bláfjöll, að ég hefði malbikað Bláfjallaveginn fyrir 25 árum. Það er gaman að skilja eftir sig eitthvað sem gerir líf annarra ánægjulegra,“ segir Jón Þór kátur og fullur tilhlökkunar að malbika á ný.

„Það er mikill margbreytileiki á milli starfa í malbikun. Þar eru störf sem krefjast mikils skipulags og nákvæmni, sem og verkvits og hreysti, og svo eru sum eins og mitt starf á planinu svo tilbreytingarlaus að ég hef huga minn frjálsan til að gera skapandi hluti, eins og bókina „The Game of Politics“ og Þingspilið á síðasta ári,“ upplýsir Jón Þór.

Hann segir alþingismenn og malbikara vísast eiga sitthvað sameiginlegt, en þó komi ekkert augljóst upp í hugann.

„Það er kostur hvað störfin eru ólík. Þingmenn geta svo auðveldlega orðið fastir inni í bergmálshelli og hætt að skilja líf fólksins sem þeir vinna fyrir, svo það hefur verið góð jarðtenging að komast í malbikið á sumrin.“

Stemningin við malbikun í heitri sumarsól sé svo engri lík.

„Þar ríkir sannkölluð sólstrandarstemning. Lofthitinn frá malbikinu er alltaf yfir 20°C og engu líkara en að Ísland sé hluti af Kanaríeyjaklasanum. Þar fæst líka besta sólbrúnkan, að sjálfsögðu, baðaður í olíu og asfalti,“ segir Jón Þór og skellir upp úr.

Jón Þór segir kost að störf alþingismanna og malbikara séu jafn ólík og þau eru. Því hafi verið góð jarðtenging að geta unnið í malbiki á sumrin. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

Eftirlitsskylda þingmannsins

Jón Þór sýndi á frægu myndbandi hversu auðvelt er að lagfæra holur í malbiki upp á eigin spýtur, nokkuð sem sparar húseigendum margar krónur og fyrirbyggir frekari malbiksskemmdir.

„Það er klárlega alveg frábært sparnaðarráð og kostar lítið. Eins og sést í myndbandinu er slík viðgerð sú einfaldasta í heimi. Fólk rúllar einfaldlega í malbikunarstöðina og biður um poka af viðgerðarmalbiki, tekur svo heimilissópinn og hreinsar holuna, hendir malbikinu í og keyrir yfir það á heimilisbílnum þar til malbikið þjappast. Bara bimm, bara búinn!“ segir Jón Þór og hlær, en þó fullur alvöru því þetta er svo sannarlega hægt.

Það hefur snert hann sem alþingismann og malbikara að sjá hvernig slys og óöryggi hafa hlotist af óvönduðu malbiki eða bundnu slitlagi á þjóðvegum landsins í seinni tíð.

„Já, svo sannarlega, og rétt viðbrögð eru að yfirfara alla öryggisþætti. Sem þingmaður með eftirlitsskyldu með framkvæmdavaldinu fengum við samþykkta stjórnsýsluúttekt til að aðstoða Vegagerðina við að fara yfir sína ferla og sem starfsmaður á plani í malbikinu er mitt hlutverk að láta vita ef malbikið lítur óeðlilega út. Þá kemur sér vel að hafa horft á malbik í aldarfjórðung.“