Íslendingar hafa löngum byggt sjálfsmynd sína á óbilandi trú sinni á að hér á landi sé allt best í heimi. Ekki bara vatnið, loftið og lambakjötið, heldur ekki síður allt norræna velferðarsamfélagið sem við byggðum upp af óbilandi manngæsku og samkennd. Eða þannig.

Jón Gunnarsson, ráðherra dómsmála, og aðstoðarflugstjóri hans, Brynjar Níelsson, sjá betur en skýjaglóparnir í gegnum háloftaþokuna og meta stöðuna þannig að óhjákvæmilegt sé að fljúga Gæsluflugvélinni TF-Sif lóðbeint á íslensku skýjaborgina sem hrynur loks með tilheyrandi bramli og brauki.

Þeir telja óhjákvæmilegt að selja flugvél Landhelgisgæslunnar vegna þess að það eru ekki til peningar. Gæslan er þó síður en svo eina fjársvelta opinbera stofnunin.

Þær eru margar eins og allir sjá sem vilja. Hvert sem litið er vantar krónur og aura nema á RÚV. Sú stofnun getur leikið sér með skattfé og sótt auglýsingar ofan í þá átta milljarða sem stofnunni er úthlutað úr tómum ríkiskassanum árlega.

Leikskólarnir

Hér þarf lítið að segja. Leikskólar eru sums staðar í fínum málum og geta hlúð að yngstu borgurunum. En hjá skóla- og frístundasviði Reykjavíkur Dags B. Eggertssonar virðist lítill sem enginn skilningur á grundvallarlögmálum dagvistunar barna. Þar reiknaði fólk sig að þeirri niðurstöðu að leikskólarnir séu ofmannaður sem nemur 75 starfsmönnum á meðan leikskólastjórar í borginni sendu frá sér neyðarkall í fyrra um að 400 milljónir vantaði í reksturinn. Borgin á víst enga flugvél og spurning hvort hún eigi yfirleitt eitthvað eftir sem hægt er að selja?

Grunnskólarnir

Það eru ekki til kennarar til að kenna krökkum. Þau er flest búin að segja upp til að gerast flugfreyjur eða þjónar. Þá eru myglaðir skólar um allt land, og í skýrslu frá 2019 kom fram að skólastjórnendur og skóla- og frístundasvið líta myglað menntakerfið ekki sömu augum og greinir á um hversu mikið fé þurfti til þess að halda því gangandi sómasamlega. Ótrúlegt en satt var stofnaður stýrihópur til að vinna að réttlátari dreifingu fjármagnsins sem er eyrnamerktur málaflokknum.

Háskólarnir

Landssamtök íslenskra stúdenta lýstu í desember yfir þungum áhyggjum af langvarandi fjársvelti á háskólastigi og bentu á að Ísland væri eftirbátur samanburðarþjóða sinna þegar kemur að fjárfestingu í háskólamenntun. Heildartekjur á ársnema við Háskóla Íslands voru 2,9 milljónir árið 2019. Þetta ár, voru til samanburðar, meðaltekjur á ársnema við háskóla í Danmörku 5,5 milljónir og 4,8 milljónir í Noregi. Samt er þó enn talið raunhæft að koma Háskóla Íslands í fremstu ráð háskóla á heimsvísu. En ekki hvað?

Heilbrigðiskerfið

Án orða.

Lögreglan

Fyrir tíu árum kynnti innanríkisráðherra áfangaskýrslu á Alþingi þar sem fram kom að staða löggæslu í landinu væri grafalvarleg. Brugðist var við með auknum fjárframlögum en svo byrjaði ferðafólk að streyma til landsins í kjölfar makrílsins. Í ársbyrjun 2018 var fjöldi lögreglumanna 1,7 á hverja 1.000 íbúa en aðeins 0,3 þegar ferðamenn eru taldir með, samkvæmt skýrslu Ríkislögreglustjóra.

Íþróttir

Landsliðin í körfubolta fengu aðeins nokkrar krónur og aura frá Afrekssjóði ÍSÍ. Framtíð A-landsliða Íslands í körfuknattleik gæti verið í hættu vegna þessa. Andri Stefánsson, framkvæmdastjóri ÍSÍ, benti nýlega á þá staðreynd að iðkendur þurfi að punga einhverju út í öllu landsliðastarfi nema knattspyrnu. Sem þýðir að ef barn eða unglingur stendur sig vel og kemst í landslið í annarri íþrótt en knattspyrnu þá fellur kostnaðurinn á foreldrana.

Íþróttamannvirki

Hér þarf ekki að hafa mörg orð. Þjóðarleikvangar landsins eru þeir elstu í álfunni.

Gatnakerfið

Ef það snjóar á landi sem heitir Ísland fer allt í hnút. Hvað þá þegar hlánar í kjölfarið. Gatnakerfi landsins eru flest öll handónýtt. Sérstaklega í höfuðborginni með endalausum plásturviðgerðum, eins og minnihlutinn hefur kallað þær. Lífi og limum er ógnað með holum og sleipu malbiki sem þegar hefur kostað mannslíf í Hvalfirði.

Hafrannsóknastofnun

Rannsóknarskipið Bjarni Sæmundsson er ekki nema 53 ára gamalt. Kom hingað nýtt árið 1970. Sama ár og Apollo 13 var þeytt út í geim í frægri ferð. Það var gerð samnefnd mynd um þá ferð með Tom Hanks árið 1995. Nýrra skipið, Árni Friðriksson er um 23 ára. Það þarf væntanlega að fara huga að nýrri skipum enda fleytir tækninni fram. En kannski telst það kostur að með úreltar og bilaðar ratsjár sést ekki meira en aðeins þessir örfáu toppar á ísjökum þrotaðs samfélags.