Anna ólst upp í Hrútafirði þar sem faðir hennar, Jón Guðnason, var prestur á Prestbakka og síðar skólastjóri og kennari við Héraðsskólann á Reykjum. Móðir hennar hét Guðlaug Bjartmarsdóttir og sinnti stóru og gestkvæmu heimili. Anna segir að þegar hún minnist jóla æsku sinnar komi ein jól alltaf upp í hugann, þau séu sér svo minnisstæð.

„Þannig var að pabbi var staddur á kirkjuþingi í Reykjavík en að því loknu fékk hann far norður með varðskipinu Þór. Norðanmenn fengu oft far með skipinu ýmist suður eða norður. Þegar skipið kom að höfn við Blönduós bað hafnarstjórinn skipherrann um að sigla hvergi því veðurútlit var slæmt. Skipherrann varð ekki við þeirri bón og sigldi af stað.

Fljótlega var veðrið orðið svo vont að ekki varð við neitt ráðið og skipið strandaði á skeri. Ekki var hægt að setja út skipsbáta, því þeir hefðu brotnað í spón. Varðskipið Óðinn var kallað til hjálpar og togari kom einnig á vettvang en veðurofsinn var slíkur að ekkert var hægt að gera. Allt í einu slotaði veðrinu um stund og þá var olíu hellt í sjóinn en hún stillir öldurnar. Við það komst áhöfn og farþegar Þórs yfir í Óðin, heil á húfi,“ rifjar Anna upp.

Heimilisfólk á Prestbakka vissi af strandinu og beið milli vonar og ótta fregna af heimilisföðurnum. „Við vorum sjö systkinin og mamma sat hjá okkur á gólfinu og sagði okkur sögur og ævintýri til að róa okkur. Þótt ég væri lítil gleymi ég þessu aldrei. Daginn eftir fengum við þær fréttir að allir væru heilir á húfi. Pabbi kom síðan heim á Þorláksmessu og það var stórkostlegasta jólagjöf sem ég hef nokkurn tímann fengið.“

Bókelsk frá ungaaldri

Anna og systkini hennar fengu alltaf bækur í jólagjöf og svo var lesið fram eftir jólanótt. „Við systkinin vorum öll miklir bókabéusar. Um leið og ég fór að vinna og safna mér peningum keypti ég bækur. Ég hef alla tíð verið mikið fyrir bækur,“ segir Anna, sem flutti sextán ára til Reykjavíkur. Tveimur árum síðar giftist hún Sveinbirni Markússyni kennara og þau eignuðust sex börn. Barnabörnin eru 13 og langömmubörnin eru orðin 10 talsins.

Þegar Anna hóf búskap hélt hún í gamlar hefðir frá æskuheimili sínu. „Byrjað var að skreyta heimilið á Þorláksmessu og sama dag bakaði ég síðustu kökurnar en það voru formkökur. Þá var ég búin að baka smákökur og tertur. Svo sauð ég hangikjöt en það hvarflaði ekki að mér að borða skötu á Þorláksmessu. Skata og hákarl er það voðalegasta sem ég get hugsað um,“ segir hún ákveðin.

Á aðfangadag var ýmist lambahryggur eða lambalæri í matinn en Anna segir lambahrygginn hafa verið vinsælli. „Enn í dag finnst börnunum mínum best að fá lambahrygg í jólamatinn. Á jóladag var hangikjöt og svo voru afgangarnir borðaðir næstu daga á eftir. Í gamla daga var svo margt fólk hjá okkur á jólunum, bæði nágrannar og systkini mín. Það var alltaf gaman hjá okkur,“ segir hún.

Saumaði jólafötin

Jólaskrautið bjó Anna til sjálf en allt lék í höndunum á henni. „Ég var mikið fyrir að teikna, mála og föndra. Ég hafði líka gaman af því að skreyta og skreytti meira að segja veggina á heimilinu. Ég festi greinar á veggina og bjó til allt mögulegt. Ég saknaði skrautsins þegar það var tekið niður,“ segir hún.

Anna saumaði líka jólaföt á öll börnin sín. „Mér fannst svo gaman að sauma. Þegar ég var í Reykjaskóla var ég með einstaklega góðan handavinnukennara sem kenndi mér réttu handtökin. Ég saumaði fermingarkjólinn minn og eftirfermingarkjólinn líka. Þegar maður kann undirstöðuatriðin er eftirleikurinn auðveldur og hægt er að sauma hvað sem manni sýnist. Ég saumaði jólaföt á börnin mín og í raun flestallan fatnað þar til þau komust á fullorðinsaldur.“

Á Hrafnistu um jólin

Þegar Anna er spurð hvort það hafi ekki verið í mörg horn að líta fyrir jólin segir hún svo vissulega hafa verið en það hafi skipt mestu máli að skipuleggja sig vel. Hún hefur nú búið á Hrafnistu við Laugarás í rúman áratug og líkar mjög vel. „Það er stærsti happdrættisvinningur sem hægt er að fá, að lenda hérna. Það er sama hvar ég er, ég er alltaf með gott fólk í kringum mig. Frá því að ég flutti hingað hef ég verið hjá börnunum mínum á aðfangadag en í ár ætla ég að vera á Hrafnistu og er mjög ánægð með það. Í framtíðinni ætla ég að vera á Hrafnistu á aðfangadag og það er eins gott að venja sig á það strax,“ segir hún að lokum.