Glamúrinn réð ríkjum á Tony-verðlaunahátíðinni sem fór fram um síðustu helgi. Þar voru bestu leikrit og söngleikir síðasta árs á Broadway verðlaunaðir og það bættist við nýr EGOT-verðlaunahafi.
Tony-verðlaunin voru haldin í 75. sinn síðasta sunnudag í Radio City Music Hall í New York og þar voru bestu Broadway-sýningar síðasta árs verðlaunaðar.
Sigursælustu sýningarnar voru leikritið The Lehman Trilogy, sem vann fimm verðlaun, meðal annars sem besta leikritið, og endurflutningurinn á söngleik Stephen Sondheim, Company, sem vann einnig fimm verðlaun, meðal annars fyrir besta endurflutninginn.
Söngleikurinn A Strange Loop, sem hefur einnig unnið Pulitzer-verðlaun, vann verðlaun sem besti söngleikurinn. Hann fékk 11 tilnefningar, sem voru flestar þetta árið, en vann bara til tvennra verðlauna.
Jennifer Hudson vann verðlaun sem aðalframleiðandi A Strange Loop og varð þar með 17. einstaklingurinn í sögunni sem hefur unnið Emmy-, Grammy-, Óskars- og Tony-verðlaun.
Að sjálfsögðu mættu allar stjörnurnar á rauða dregilinn í fínustu kjólum og jakkafötum sem völ er á og miðillinn People tók saman lista yfir best klæddu stjörnurnar. Hér eru nokkur þeirra sem komust á listann. ■







