Glamúrinn réð ríkjum á Tony-verðlaunahátíðinni sem fór fram um síðustu helgi. Þar voru bestu leikrit og söngleikir síðasta árs á Broadway verðlaunaðir og það bættist við nýr EGOT-verðlaunahafi.

Tony-verðlaunin voru haldin í 75. sinn síðasta sunnudag í Radio City Music Hall í New York og þar voru bestu Broadway-sýningar síðasta árs verðlaunaðar.

Sigursælustu sýningarnar voru leikritið The Lehman Trilogy, sem vann fimm verðlaun, meðal annars sem besta leikritið, og endurflutningurinn á söngleik Stephen Sondheim, Company, sem vann einnig fimm verðlaun, meðal annars fyrir besta endurflutninginn.

Söngleikurinn A Strange Loop, sem hefur einnig unnið Pulitzer-verðlaun, vann verðlaun sem besti söngleikurinn. Hann fékk 11 tilnefningar, sem voru flestar þetta árið, en vann bara til tvennra verðlauna.

Jennifer Hudson vann verðlaun sem aðalframleiðandi A Strange Loop og varð þar með 17. einstaklingurinn í sögunni sem hefur unnið Emmy-, Grammy-, Óskars- og Tony-verðlaun.

Að sjálfsögðu mættu allar stjörnurnar á rauða dregilinn í fínustu kjólum og jakkafötum sem völ er á og miðillinn People tók saman lista yfir best klæddu stjörnurnar. Hér eru nokkur þeirra sem komust á listann. ■

Billy Porter var í silfurlituðum jakkafötum frá Dolce & Gabbana, rúllukragabol og með silfurlitaða fléttu.
Ariana DeBose þótti sérlega glæsileg í þessum sérsaumuða kjól frá Boss og með skartgripi frá Or & Elle.
Hugh Jackman og Sutton Foster voru glæsileg, hann var í klassískum smóking og hún var í grænum Dolce & Gabbana kjól með skartgripi frá Tiffany & Co.
Andrew Garfield mætti í flauelsjakkafötum frá Tom Ford.
Sarah Paulson vakti athygli í þessum sérstaka Moschino kjól með dökkrauðan varalit og hárið sleikt aftur.
Zach Braff kom með skemmtilegan snúning á klassískan fatnað í þessum brúna smóking úr flaueli.
Jessica Chastain var í bleikum Gucci satínkjól og með dökkrauðan varalit.
Ungstirnið Gaten Mattarazzo var flottur í ljósbrúnum og svörtum jakkafötum og svartri skyrtu.