Elísa segir að fótboltinn sé hennar ástríða og það gefi henni mikið að mæta á æfingu, hitta liðsfélaga og fá útrás á góðri æfingu. Hún segist ekki vita hver uppskriftin sé að því að systkini hennar hafi öll verið öflugt íþróttafólk.

„Ef ég ætti að giska á eitthvað þá eigum við fyrirmyndarforeldra sem leggja mikið upp úr heilbrigði og hreysti. Einnig eigum við systur eldri bræður sem báðir spiluðu fótbolta, þeir voru fyrirmyndir okkar þegar við vorum litlar og hafa pottþétt haft áhrif á það að við sóttum í fótboltann. Fjölskyldan er saman sett af keppnisfólki og því mjög erfitt að bregða á leik í fjölskylduboðum ef ekki á að enda illa,“ segir hún en heilsa og góður lífsstíll hefur alltaf skipt hana máli. Elísa er í sambúð með Rasmus Christiansen og saman eiga þau eina dóttur, Guðmundu Hanne.

Alltaf meðvituð um mataræði

„Á mínu heimili var alltaf eldaður hollur matur og kvöldmaturinn var heilög stund fyrir fjölskylduna. Mamma mín er ótrúlega mikill listakokkur og ætli áhuginn hafi ekki kviknað fljótlega á unglingsárunum. Þá fór ég að hugsa út í þá þætti sem ég gat haft stjórn á til þess að bæta mig sem íþróttakonu. Ég er meðvituð um mataræðið en er alls ekki í neinum öfgum. Ég hef tamið mér að borða reglulega og reynt að borða það sem líkaminn minn kallar á hverju sinni. Vel eins hreint hráefni og kostur er og set saman máltíðir sem gefa mér næringu til að sinna æfingum og daglegu lífi,“ segir Elísa.

Nýlega kom út bókin Næringin skapar meistarann eftir Elísu. Hún segir að það hafi verið Haraldur, félagi hennar í Valsheimilinu, sem hafi hvatt hana í sumar til að gefa út bók. „Hann sparkaði mér harkalega út í djúpu laugina og fyrir það verð ég honum ævinlega þakklát. Ég hafði ekki gengið með þann draum að gefa út bók enda var ég nýbúin að skila af mér meistararitgerð í næringarfræði. Mig langaði að gefa eitthvað frá mér í framhaldinu og úr varð þessi bók sem hefur fengið góða athygli. Ég hef fengið skilaboð frá foreldrum sem segja mér að börnin þeirra séu farin að prófa sig áfram í eldhúsinu og séu áhugasöm um bókina. Þegar ég fæ slík skilaboð er markmiðum mínum náð,“ segir hún. Bókin geymir einfaldar og bragðgóðar uppskriftir með eingöngu fimm hráefnum í hverjum rétti sem tryggir að allir finna eitthvað við sitt hæfi.

Leggur áherslu á hreina fæðu

Sjálf hefur Elísa mjög gaman af því að matreiða en góðir fiskréttir eru í miklu uppáhaldi. „Og svo heimagerð grilluð pitsa sem er í uppáhaldi á heimilinu.“ Elísa segist almennt borða reglulega og breyti ekkert út af þeim vana um jól eða áramót. „Ég vel þann mat sem líkami minn kallar eftir hverju sinni. Ég er samt mikið jólabarn og elska margt sem tengist jólum. Ég borða þann mat sem mig langar í. Á gamlárskvöld höfum við verið með túnfisksteik og ætli það verði ekki aftur núna með góðu meðlæti og sósu.“

Hvað myndir þú ráðleggja þeim sem langar að breyta mataræðinu um áramót?

„Taka lítil skref í einu í átt að bættri heilsu, ekki taka mataræðið þitt og snúa því algjörlega við, slíkt er ekki vænlegt til árangurs. Ég mæli líka alltaf með því að bæta einhverju við mataræðið sitt í stað þess að taka út eins og að borða meira af grænmeti eða fiski og þá ósjálfrátt minnkar eitthvað annað á móti.“

Elísa segist ekki vera talsmaður þess að fólk fari á matarkúra. „Það er vissulega hægt að taka eitt og annað úr mismunandi kúrum. Ég held frekar að það sé kominn tími til að hætta að tala um mataræði í kúrum og fara almennt að hugsa um að borða hreina og lítið unna matvöru. Þá er mikilvægt að borða reglulega og hlusta á líkamann. Stærsta ógnin í samfélaginu í dag tengt mat er alltof mikið framboð af unnum mat. Eitt stærsta verkefni næringarfræðinga í dag er að hjálpa fólki að umgangast allt þetta framboð og freistingar. Góð leið til að byrja hægt og rólega að bæta sinn lífsstíl er að skrifa niður vikumatseðil og kaupa inn einu sinni eða tvisvar í viku. Einungis skal kaupa það sem stendur á listanum,“ segir Elísa.

Stórt ár fram undan

Hún notar ekki áramótin til að strengja áramótaheit, hún setur sér markmið oft yfir árið og skiptir þeim upp eftir því hvort þau tengjast íþróttum, vinnu eða hversdagslífinu. „Ég horfi þó til baka um áramót og þakka fyrir allt það góða sem það bauð upp á og reyni að draga lærdóm af ef upp kemur mótlæti. Ég mæli með markmiðum fyrir alla, það heldur neistanum lifandi og eflir mann til dáða. Gott er samt að njóta vegferðarinnar að settu marki. Litlu sigrarnir í átt að markmiðinu gera oft verið skemmtilegir,“ segir hún.

Elísa segir að nýja árið leggist vel í hana og hún hlakkar til margra verkefna sem orðið hafa til í kjölfar bókarinnar. „Það verður stórt ár fram undan í boltanum, bæði með Val og landsliðinu. Mikil orka mun fara í það að æfa vel á nýju ári,“ segir Elísa og gefur hér uppskrift að hafrabananapönnukökum.

Hafrabananapönnukökur að hætti Elísu.

Hafrabananapönnukökur

fyrir einn

1 bolli hafrar

1 stappaður banani

1 egg

3 msk. grísk jógúrt, ab-mjólk eða sýrður rjómi

1 tsk. lyftiduft

1 tsk. kanill

Smá salt

Hrærið öllum hráefnum saman þar til allt er hæfilega þykkt.

Steikið á miðlungshita á pönnu.

Snúið einu sinni við.

Borðið með grískri jógúrt, sultu, smjöri og osti.