Ljósmyndari News Channel 5 í Nashville í Bandaríkjunum fylgdi á dögunum manni sem tekið hefur löggæslu þar í borg í eigin hendur, undir dulnefninu „Shadow Patriot.“
Hann segist ekki líta á sig sem ofurhetju, þrátt fyrir að hann klæði sig upp í sérstakan búning til að leyna persónueinkennum sínum. „Nashville um dag er skemmtilegur staður til að vera,“ segir löggæslumaðurinn. „En þegar sólin sest taka þessir hlutir á sig grárri mynd, verða verri og þar kemur Shadow Patriot inn.“
Eins og sjá má er löggæslumaðurinn með Bandaríkjafána framan á sér. „Ég er borgarahetja og á kvöldin vakta ég miðbæinn,“ segir hann. Hann tekur fram að lögreglan geti ekki verið alls staðar og því vilji hann gera sitt gagn.
„Þetta er eins og nágrannagæslan. Ég labba um og fylgist með. Flestir fylgjast ekki með neinu og vita ekkert hvað er á bak við sig,“ segir hann. „Ég er ekki að reyna að vera myndasöguhetja. Ég er ekki ofurhetja. Ég er bara venjulegur gaur sem felur nafn sitt. Þetta snýst ekki um mig, þetta er um Shadow Patriot og Bandaríkin.“