„Kolgrafarvíkin er mér kær, því þar átti ég margar sælustu stundir bernsku minnar þegar ég var í sveit í Stóru-Ávík,“ segir Hrafn Jökulsson sem dvelur þessi dægrin á Ströndum, þar sem hann hefur ekki setið auðum höndum andspænis plastflóðinu sem dynur á æskudraumalandi hans.

„Kolgrafarvíkin breiðir út faðminn mót opnu hafi og tekur við gjöfum sjávarins,“ heldur hann áfram og bætir við:

Kolgrafarvík með opinn faðminn hefur tekið við plastlagi, sem Hrafn skýtur á að nái niður á 20-30 sentimetra dýpi í fjörukambinum.
Mynd/Jóhanna Engilráð

„Áður fyrr var hvert sprek notað og spýtur og drumbar notuð í staura, byggingarefni eða verkfæri. Nú safnast viðurinn upp í hauga sem brimið hrærir í. Og alls staðar er plastið og netadræsurnar og ruslið. Undir hverjum steini og hverri spýtu.“

Vörn í sókn

„Við þessu er bara eitt að gera. Snúa vörn í sókn. Ævintýraheimur bernsku minnar á ekki að verða ruslahaugur minna efri ára,“ segir Hrafn sem er þegar byrjaður, enda ærið verk fram undan.

Feðginin Jóhanna og Hrafn eiga von á liðsauka en eru byrjuð á fullu að hreinsa víkina og Jóhanna festir þróun mála vandlega á stafrænar filmur.
Mynd/Jóhanna Engilráð

„Frelsun Kolgrafarvíkur útheimtir nokkur þúsund vinnustundir, svo mikið er víst. Það þarf að flokka spýturnar, hreinsa fjöruna og fjörukambinn og grundina, þar sem plastið er hreinlega allt að kæfa. Síðan ég kom í Trékyllisvík fyrr í maí hef ég varið samtals um 60 klukkustundum í hreinsun Kolgrafarvíkur og talsvert mörgum til viðbótar í gagnaöflun og ráðagerðir,“ segir Hrafn sem hefur þegar fengið liðsauka í dóttur sinni, Jóhönnu Engilráð, og miklu fleiri vinnufúsar hendur eru væntanlegar.

„Ég átta mig ekki alveg á því hvort ég er búinn með eitt prósent af þeirri vinnu sem alvöru hreinsun Kol­grafarvíkur útheimtir, en það er bara ein leið til að komast að því.

Til þess að sjá glitta í jarðveginn þarf að „tína burt sprek, rafta, kaðla, netakúlur, sjampóbrúsa, haglaskot, net, fiskikassa og óteljandi plastflísar.“
Mynd/Jóhanna Engilráð

Ég á von á góðum liðsstyrk í sumar frá fjölskyldu og vinum mínum. Það dregur langt. Margir bíða óþreyjufullir eftir að komast í Kolgrafarvík. Þá er von á stórkostlegum liðsauka frá Ferðafélagi Íslands, sem mun senda sjálfboðaliða til mín,“ segir Hrafn og bætir við að hann telji víst að „þetta sé skemmtilegasta og mikilvægasta verkefni sem ég hef tekist á hendur. Og ég get hreinlega ekki lýst því hversu hollt þetta er fyrir líkama og sál.“