Jón Knútur Ásmundsson, skrifstofu- og tónlistarmaður á Reyðarfirði, hreifst eins og hálf heimsbyggðin eða svo að ullarvettlingum Bernie Sanders og var snöggur að stökkva á vagninn í krafti þess að konan hans, Esther Ösp Gunnarsdóttir, er alltaf með eitthvað á prjónunum og fór létt með að uppfylla ósk hans heitustu vettlinga í heimi á einni kvöldstund.

„Feel the bern! Auðvitað græjaði konan mín, prjónaartistinn, handa mér Bernievettlinga á einu kvöldi!“ hrópaði Jón Knútur, sem er meðal annars þekktur fyrir að lemja húðir með hljómsveitinni Coney Island Babies, stoltur á Facebook þegar hann sýndi vettlingana sína.

„Konan mín er alltaf með eitthvað á prjónunum,“ segir Jón Knútur og bætir við að Esther Ösp hafi verið enga stund að finna prjónauppskriftina að Bernie-munstrinu og hafi afgreitt bón hans á einni kvöldstund yfir raðmorðingjaseríunni Night Stalker á Netflix.

„Afbragðsstöff,“ segir hann um þættina og fer ekki leynt með að vettlingarnir hans eru engu síðra gæðaefni.

„Ég bað hana um þetta vegna þess að mér finnast þetta svo fallegir vettlingar. Þjóðlegir og passa vel við Álafosspeysuna mína,“ segir Jón Knútur og ekki alveg út í bláinn ef marka má prjónasérfræðinginn Guðný Ingibjörgu Einarsdóttur sem sagði ljóst að þarna væri íslensk lopapeysa á ferðinni í samtali við Fréttablaðið.is skömmu eftir að Sanders sýndi heimsbyggðinni vettlingana.

Bernie teygir lopann víða

„Kannski er Bernie einhver svona vinstrimaður sem við elskum. Vinalegur kall sem messar yfir manni í fermingaveislu,“ segir Jón Knútur þegar hann er spurður hvort aðdáun hans á öldungardeildarþingmanninum hafi haft mikil áhrif á áhuga hans á vettlingunum. “Ég myndi kjósa hann ef hann væri framboði hér á Reyðarfirði allavega.“

Þótt Esther Ösp hafi verið eldsnögg að framleiða vettlingaparið telur Jón Knútur vinsældir þeirra slíkar að hann sé í raun að reka lestina. „Ég sé þetta út um allt og fannst ég vera að elta einhvern tískustraum en lét það eftir mér en kannski erum við bara að prjóna meira hérna í sveitinni.“

Þegar Bernie-vettlingarnir eru komnir á sinn stað er lítið mál að setja sig í réttar stellingar.
Fréttablaðið/Samsett

„Esther Ösp prjónaði báða vettlingana í einu,“ segir Jón Knútur og bætir við að slíkt er ekki á allra færi og aðeins fyrir miklu lengra komna. „Svo ég monti mig nú af henni,“ heldur hann áfram og bendir á að Esther hefur ásamt Bylgju Borgþórsdóttur gefið út bókina Prjónadagbókin mín auk þess sem þær hafa undanfarin ár hannað og gefið út uppskriftir að prjónaflíkum á börn undir heitinu Big Red Balloon.