Fimmta árið í röð blása vinkonurnar Andrea Magnúsdóttir, Aldís Pálsdóttir, Nanna Kristín Tryggvadóttir og Elísabet Gunnarsdóttir til til góðgerðarsöfnunarinnar Konur eru konum bestar.

„Við erum gamlar vinkonur sem erum flestar eitthvað að vinna tengt tísku,“ útskýrir Elísabet, bloggari á Trendnet, og segir þær hafa lagt upp árið 2017 með það fyrir augum að eyða neikvæðu umtali.

Verkefnið hefur verið árlegt frá 2017 og í fyrra var slegið söfnunarmet þegar 6,8 milljónir króna söfnuðust fyrir Bjarkarhlíð. Allur ágóði sem safnast nú rennur til Stígamóta.

Elísabet bjó erlendis um tólf ára skeið. „Ég kom oft heim og fannst ég alltaf fá þessar neikvæðu fréttir áður en ég fékk einhverjar góðar fréttir af fólki. Það var svolítið eins og þetta væri ísbrjóturinn þegar mér var sagt slúður af hinum eða þessum,“ segir hún.

Elísabet segist hafa þótt þetta hugarfar afar dapurlegt. „Ég hef ekki áhuga á slíku. Við Andrea erum báðar mæður þannig að við fórum að tala um þetta. Ég nefndi þetta við hana hvað mér fyndist þetta glatað og að við þyrftum nú að gera eitthvað í þessu og að við vildum vera betri fyrirmyndir fyrir okkar stelpur og næstu kynslóð á eftir. Að þær detti ekki í þetta.“

„Við viljum eyða út þessari setningu, sem oft er sögð, um að konur séu konum verstar og fórum fram og til baka hvernig best væri að gera þetta. En við erum miklar áhugakonur um tísku og vildum gera góðgerðarbol sem væri líka klæðilegur og endingargóður,“ segir Elísabet. „Og við höfum svo haldið í það, að gera bol sem fólk geti notað og finnist flottur.“

Mynd/Aðsend

Öðruvísi byrjun í ár

„Við erum að gera þetta öðruvísi en við höfum verið að gera þetta undanfarin ár,“ segir Elísabet. „Í fyrra til dæmis vorum við búnar að blasta þessu út um allt áður en salan fór í loftið en í gær sviptum við hulunni af nýja bolnum,“ segir Elísabet og segir opnunina hafa verið rólegri í ár en ekkert verður hins vegar gefið eftir.

Elísabet segir bolina sérstaklega töff í ár. Þeir eru svartir með svörtu letri en B-ið fær að haldast rautt því þær stöllur vilja undirstrika þessa góðu línu og eyða út annarri sem er oft notuð, eins og hún útskýrir það. „Þessi hugmynd fæddist yfir kaffibolla einhvern tímann fyrir löngu og svo árið 2017 gerðum við loksins eitthvað í því.“

Hún segir áhugann hafa aukist síðastliðin ár. „Svo var þessi sprenging í sölu í fyrra sem kom skemmtilega á óvart því þetta var í fyrsta sinn sem við gátum ekki verið með viðburð út af svolitlu,“ segir Elísabet. Hún segir drifkraftinn ekki á undanhaldi hjá þeim vinkonum.