Bókin er samstarfsverkefni sex vinsælla matarbloggara sem leggja til vinsælustu uppskriftirnar sínar. Hver og einn bloggari er með sitt sérsvið og bókin inniheldur því afar fjölbreyttar uppskriftir frá þessum frábæru konum. Allt frá gómsætum eftirréttum og kökum til klassískra rétta, heilsurétta og einfaldra hversdagsrétta. Bókin inniheldur 120 uppskriftir og ættu því allir að finna eitthvað við sitt hæfi.Bókin er samstarfsverkefni sex vinsælla matarbloggara.

Anna Eiríksdóttir er alger orkubolti enda deildarstjóri í Hreyfingu og hóptímakennari til fleiri ára. Anna hefur hreyft sig mikið frá því að hún man eftir sér og það kom aldrei neitt annað til greina en að starfa við eitthvað tengt hreyfingu. Eins og flestir vita þá fer það afar vel saman að stunda reglulega hreyfingu og borða hollan mat og ákvað Anna því í desember árið 2017 að opna sína eigin heimasíðu www.annaeiriks.is þar sem hún býður konum upp á markviss æfingarplön, uppskriftir í hollari kantinum og fleira heilsutengt.

Anna heldur úti heimasíðunni annaeiriks.is og býður þar upp á æfingaplön, hollar uppskriftir og fleira heilsutengt.

Síða Önnu er þannig uppsett að hún virkar nánast eins og að vera með einkaþjálfarann heima í stofu hjá sér því það þarf ekki að vera með aðgang að líkamsræktarstöð til að geta stundað æfingarnar og þegar fólk bætir við hollu mataræði fara góðir hlutir að gerast.

Nálgun Önnu á mataræðið og ráðleggingar hennar eru eins og hún gerir þetta sjálf, hollt mataræði án allra öfga. Hún leyfir sér í rauninni allt í mataræði en borðar ekki stóra skammta og er dugleg að hreyfa sig á móti enda er lífið of stutt til að leyfa sér ekki að njóta góðs matar segir Anna.

Anna er með 20 uppskriftir í bókinni Vinsælustu uppskriftirnar frá vinsælum bloggurum og eru þær allar í heilsusamlegri kantinum. Þar er að finna uppskriftir af eggjakökum, flatbökum með girnilegu áleggi, salötum, súpum, hollum heilsudrykkjum og meira að segja suðrænum jarðaberjaís með aðeins örfá hráefni.

Berjaskálin er ferskur og léttur morgunverður sem getur einnig hentað sem hádegisverður.

Berjaskál Önnu

Anna deilir með okkur uppskrift af berjaskál sem er í raun þykkur þeytingur sem er hellt í skál og borðaður með skeið í stað þess að drekka hann. "Með þessu móti get ég sett ýmislegt góðgæti eins og múslí, bananasneiðar og ber saman við hann sem er það sem setur punktinn yfir i-ð. Þetta er ótrúlega ferskur, léttur og bragðgóður morgunverður sem ég fæ mér lílka oft sem hádegisverð," segir Anna.

Uppskrift fyrir 1

2 dl frosin ber að eigin vali
½ dl möndlumjólk, má vera meira ef blandan verður of þykk
½ banani
½ dl múslí
Fersk ber á toppinn

Berjum og möndlumjólk er hrært saman í blandara, hellt í skál og múslí sett á toppinn ásamt berjum og bananasneiðum.