Bergþóra nefnir þrjár bækur sem hún er að lesa þessa dagana og þar er að sjálfsögðu efst á blaði bókin Arnaldur Indriðason deyr, eftir kærastann hennar, Braga Pál Sigurðarson. „Ég verð náttúrulega að segja Arnaldur Indriðason deyr, ég er búin að lesa hana mjög oft. En ég var að lesa hana í síðasta sinn fullkláraða.“

Myrkrið milli stjarnanna – Hildur Knútsdóttir

„Ég las hana bara á einu kvöldi, mann langar ekkert að leggja hana frá sér.“

Óskilamunir – Eva Rún Snorradóttir

„Hún er svona óþægileg, það er alltaf eitthvað undirliggjandi. Eitthvað sem marrar undir,“ segir Bergþóra. „Þetta er fyrir mér eiginlega skáldsaga, en þarna eru margar stuttar sögur. Sögumaðurinn er síðan alltaf sá sami, þannig að þetta er eins og bræðingur af smásagnasafni og skáldsögu,“ segir hún.

Herbergi í öðrum heimi – María Elísabet Bragadóttir

„Sjitt, hvað hún er góð, ég varð eiginlega græn af öfund! Hún situr í og er svo vel skrifuð.“