Bergrún Íris Sæ­vars­dóttir vann í dag til nýrra barna­bóka­verð­launa sem kennd eru við Guð­rúnu Helga­dóttur og eru veitt fyrir frum­samið hand­rit að barna- eða ung­menna­bók. Verð­launin fær hún fyrir hand­ritið Kennarinn sem hvarf, en hún er einnig fyrsti hand­hafi þessara nýju barna­bóka­verð­launa. Bók­mennta­verð­laun Reykja­víkur­borgar voru veitt í dag.

Fram kemur í til­kynningu frá Reykja­víkur­borg að fjöl­mörg hand­rit hafi borist í sam­keppni um verð­laun Guð­rúnar Helga­dóttur, en að saga Bergrúnar Írisar hafi að lokum orðið fyrir valinu.

„Sagan ber um margt ein­kenni úr höfundar­verki Guð­rúnar Helga­dóttur með sér, hún er hlý og talar beint til barna, inn í þeirra heim og dæmir ekki. Að mati dóm­nefndar tekst höfundi á­reynslu­laust að skapa at­burða­rás sem er í senn beint úr raun­veru­leika barna en samt svo sér­stök og ævin­týra­leg að það vekur at­hygli og spennu,“ segir í til­kynningunni.
Dóm­nefnd skipuðu þær Sabine Leskopf, Halla Þór­laug Óskars­dóttir og Dröfn Vil­hjálms­dóttir. Einnig komu að dóm­nefnda­störfum fjórir nem­endur af ung­linga­stigi Selja­skóla. Bók Bergrúnar kemur út í maí og gefur Bóka­beitan hana út.

Hildur Knútsdóttir er margverðlaunuð. Hún vann í dag til verðlauna fyrir bókina Ljónið.

Hörkuspennandi ungmennasaga

Verð­laun fyrir bestu frum­sömdu bókina á árinu 2018 komu í hlut Hildar Knúts­dóttur fyrir bókina Ljónið, sem er fyrsta bókin í nýjum þrí­leik. Hildur er marg­faldur verð­launa­höfundur sem slegið hefur í gegn með bókum sínum Vetrar­frí og Vetrar­hörkur en þær hafa báðar verið þýddar á fjöl­mörg tungu­mál.

„Ljónið er hörku­spennandi ung­menna­saga sem gerist í sam­tímanum en teygir anga sína aftur til ógn­vekjandi at­burða. Sagan fjallar um Kríu sem er að byrja í Mennta­skólanum í Reykja­vík. Þar þekkir hún engan og hún hefur litlar væntingar til skólans. Brátt kynnist hún Elísa­betu, og þrátt fyrir strangt nám er mennta­skóla­lífið frá­bært. Þegar Elísa­bet finnur gamalt skrín í földum skáp fara þær vin­konurnar að rann­saka undar­legt mál stúlku sem hvarf spor­laust fyrir 79 árum. Það kemur í ljós að hvarf stúlkunnar gæti haft ó­vænta tengingu við líf Kríu. Að mati dóm­nefndar er Ljónið lág­stemmd ung­linga­bók sem virki­lega leynir á sér, bókin sjálf sé bæði undur­fal­leg og mikil, textinn einkar vel skrifaður og nostur­sam­lega unninn.“

Falleg og hugvitssöm þýðing

Þá fékk Guðni Kol­beins­son verð­laun fyrir þýðingu á Villi­mærinni fögru eftir Philip Pull­man, en þetta er í þriðja skipti sem hann fær barna­bóka­verð­laun fyrir þýðingar sínar.

„Í rök­stuðningi dóm­nefndar segir að hér sé á ferðinni í senn vönduð, fal­leg og hug­vits­söm þýðing sem færir ís­lenskum les­endum ævin­týra­bók­menntir eins og þær gerast bestar á okkar ást­kæra og yl­hýra máli.“

Rán Flygering fékk Barna­bóka­verð­laun Reykja­víkur­borgar sem mynd­höfundur fyrir bókina Sagan um Skarp­héðin Dungal sem setti fram nýjar kenningar um eðli al­heimsins, sem hún gerði með Hjör­leifi Hjartar­syni.

„Í um­sögn dóm­nefndar segir að myndir Ránar Flygen­ring í bókinni séu stíl­hreinar, grafískar og á tíðum ab­strakt. Þær sýni heiminn út frá sjónar­horni flugunnar Skarp­héðins og dragi vel fram á­herslur sögunnar. Sam­spil lita og upp­setningar skapi fal­lega og kraft­mikla heild sem einnig fangar ljóð­ræna frá­sögn bókarinnar. Rán starfar sjálf­stætt að verk­efnum víða um heim, mynd­skreytir og rit­stýrir bók­verkum.“