Tónlistarmaðurinn Júlíus Freyr, sonur Guðmundar Rúnars Júlíussonar, ætlar að renna sér í gegnum feril sinn á tónleikum í Frumleikhúsinu í Reykjanesbæ á fimmtudagskvöld.

Júlíus Freyr varð 50 ára í fyrra og hlaut það sama ár Súluna, menningarverðlaun Reykjanesbæjar, og tónleikarnir á fimmtudag tengjast þessu tvennu og þeim tímamótum að styttist í nýjan Súluverðlaunahafa. Tónleikarnir eru því öðrum þræði einhvers konar afmælistónleikar og hann segir þá ekkert endilega á eftir áætlun sem slíkir.

„Þeir eru svo sem á áætlun, en ég er 51 árs sem er kannski ekki alveg eðlilegasti aldurinn fyrir svona en það er ekkert að því,“ segir Júlíus Freyr sem hefur meðal annars gert garðinn frægan sem trommari hljómsveitarinnar Deep Jimi and the Zep Creams og bassaleikari Bergrisanna sem hafa undanfarið slegið hressilega í gegn ásamt Bjartmari Guðlaugssyni.

Allt í öllu með Gálunni

Þá mun Gálan, listamannsnafnið sem Júlíus Freyr hefur notað í gegnum tíðina, vitaskuld ekki liggja óbætt hjá garði. Hann hefur gefið út þrjár sólóplötur undir merkjum hennar þar sem hann semur öll lög og texta auk þess að spila á hljóðfærin sjálfur. Þá vann Júlíus Freyr nokkrar hljómplötur með föður sínum Rúnari Júlíussyni og allt mun þetta koma, ásamt fleiru, við sögu á tónleikunum.

„Þetta verður náttúrlega bara mjög vítt. Það er breidd í þessu, alveg frá vasaklútalögum upp í harðkjarnaþungarokk og svo sólóið þannig að þetta fer út um allt,“ segir Júlíus Freyr og nefnir föður sinn sérstaklega.

„Ég gerði líka fullt af lögum með honum.“

Júlíus Freyr varð 50 ára í fyrra og hlaut það sama ár Súluna, menningarverðlaun Reykjanesbæjar.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Upptökuheimilið Geimsteinn

Rúnar setti, eins og löngu frægt er orðið, upp hljóðver á heimili sínu í Keflavík 1982. Stúdíóið, sem hann rak til hinsta dags, var iðulega kallað Upptökuheimilið Geimsteinn og þar ólst Júlíus Freyr upp.

„Já, ég er náttúrlega alinn upp í hljóðveri. Ég held ég hafi verið þrettán ára þegar ég var að taka Magga Þór upp með Ísland er land þitt af því pabbi þurfti að fara á fótboltaæfingu,“ segir hann um hið fornfræga lag Magnúsar Þórs Sigmundssonar af plötunni Draumur aldamótabarnsins.

„Þetta var bara svo Maggi þyrfti ekki að hætta,“ segir Júlíus Freyr um elstu skemmtilegu minninguna af mörgum úr Upptökuheimilinu Geimsteini.

Fjör í Frumleikhúsinu

Tónleikastaðurinn stendur einnig nærri hjarta tónlistarmannsins en hann kom að uppbyggingu Frumleikhússins ásamt öðrum félögum í Leikfélagi Keflavíkur, sem hann hefur starfað með í rúm 30 ár og meðal annars samið tvo söngleiki sem leikfélagið setti á svið.

Félagar og vinir Júlíusar Freys í hljómsveitinni Fautum frá Reykjavík sem er skipuð Bergrisunum Birki Rafni Gíslasyni á gítar, Daða Birgissyni á hljómborð og Arnari Gíslasyni á trommur. „Og svo Guðna Finnssyni á bassa vegna þess að ég verð þarna á kassagítarnum og syng.“

Júlíus Freyr mun sem fyrr segir flytja úrval laga af tónlistarferli sínum sem Gálan og með Pandoru, Deep Jimi and the Zep Creams, Bergrisunum, föður sínum og öllum þeim listamönnum sem hann hefur unnið með í gegnum tíðina. Tónleikarnir í Frumleikhúsinu í Reykjanesbæ hefjast klukkan 21 að kvöldi fimmtudagsins 22. september. Miðasalan er á tix.is.