Mynd­listar­maðurinn Ás­laug Íris Katrín er mikil­virk um þessar mundir en hún opnaði tvær sýningar á dögunum. Frétta­blaðið heim­sótti sýningu hennar Berg­mál í List­vali á Granda.

„Fyrir þessa sýningu dró ég fram gömul pappírs­verk, svona þriggja ára gömul, sem ég vann út frá enn­þá eldra vatns­lita­mál­verki. Mér fannst gaman að hand­leika þau og koma að þeim aftur og á­kvað að það yrði svo­lítið kjarninn í sýningunni. Ég er alltaf að leika mér með þessi form og þau koma alltaf aftur og aftur inn í verkin mín í gegnum árin,“ segir Ás­laug.

Að sögn Ás­laugar leikur hún sér að því í sýningunni að láta verkin kallast á og eiga í sam­tali hvert við annað.

„Ég dró upp skugga­mynd eftir mál­verki, skar svo út nega­tívurnar á þeim formum sem komu, raðaði svo nega­tívunum upp á nýtt blað, þar sem urðu til pósitívur og svo koll af kolli,“ segir hún.

Áslaug nefndi sýninguna Bergmál því vinnuaðferð hennar minnir á bergmál auk þess sem hún notar oft steina í verkum sínum og vinnur á steindan flöt.
Fréttablaðið/Anton Brink

Tak­markanir og reglur

Ás­laug segist hafa sett sér á­kveðnar tak­markanir og reglur í sköpunar­ferlinu sem hún hafi svo leikið sér með.

„Snúa formunum við og á hvolf, stækka þau og minnka. Oft þegar ég er að skera kannski tvö form út úr sama pappír, þá verður til annað form á milli þeirra. Þetta er eins konar leikur. Þess vegna kalla ég sýninguna Berg­mál, því þetta er eins og berg­mál úr öllum áttum. Svo fannst mér líka orðið berg­mál svo fal­legt því ég nota oft steina í verkum mínum og vinn á steindan flöt.“

Verk Ás­laugar eru ólík að stærð og gerð en öll eiga þau það sam­eigin­legt að vinna með ó­hlut­bundið mynd­mál, eða ab­strakt.

„Þegar ég fór að raða þessum litlu verkum upp í röð fannst mér formin verða svo­lítið eins og bók­stafir. Það er líka hug­mynd sem ég er alltaf að velta fyrir mér og hef mikinn á­huga á. Hve­nær verður ab­strakt form að ein­hverju sem við þekkjum, eins og bók­stöfum eða hlutum? Form eins og kúla og fer­hyrningur eru kannski allt í einu orðin að vasa.“

Áslaug Íris við stærsta verkið á sýningu hennar Bergmál.
Fréttablaðið/Anton Brink

Heims­myndin stækkar

Verkin þín eru ab­strakt en þú notar oft hluti í þau eins og steina. Hvernig spilar það inn í ó­hlut­bundna mynd­málið?

„Til að byrja með vann ég bara ab­strakt en svo hefur þetta bara þróast út í þetta. Það er kannski ein­mitt þessi hug­mynd, hve­nær verður eitt­hvað að ein­hverjum hlut sem við þekkjum? Það getur líka verið skilningur, þegar maður lærir eitt­hvað þá getur maður ekki aflært það. Barn sér ab­strakt form úti um allt en svo lærir það að þekkja heiminn og þá stækkar heims­myndin. Mér finnst það svo fal­leg hugsun.“

Að sögn Ás­laugar tengist vinnu­ferli hennar með pappírs­verkunum því svo­lítið hvernig hún hugsar um heiminn.

„Í pappírs­verkunum er ég að raða nega­tívunum undir pósitívurnar, stundum sést ekki alveg í þau öll en þau eru þarna. Maður veit að þau eru þarna. Það er líka svo­lítið eins og hvernig við skiljum heiminn. Ég er svo­lítið að hugsa um lög og filt­era. Við stöndum hérna inni og ég er að horfa á húsið hinum megin við götuna en ég er líka að horfa á rýmið hérna inni, gluggann og veðrið úti og allt sem er á milli. Svo er spurning hvað maður á­kveður að með­taka. Það er líka þannig í sam­bandi við skoðanir í þjóð­fé­laginu og af­stöðu okkar gagn­vart hlutunum. Hvað ætlum við að taka mikið inn? Hvað veljum við til þess að búa til heims­mynd okkar?“

Barn sér ab­strakt form úti um allt en svo lærir það að þekkja heiminn og þá stækkar heims­myndin. Mér finnst það svo fal­leg hugsun.

Teygir sig í ó­líkar áttir

Ás­laug opnaði ný­lega aðra sýningu í Nes­kirkju sem ber titilinn Skil I Skjól og er tölu­vert frá­brugðin Berg­máli.

Eru þetta ó­líkar sýningar?

„Þetta eru mjög ó­líkar sýningar fyrir mér, sú sýning er miklu dýpri til­finninga­lega og per­sónu­legri. Mér finnst eins og ég sé með þessum tveimur sýningum svo­lítið að teygja mig sitt í hvora áttina. Þetta er samt allt í eðli­legu flæði við það sem ég er að gera. Berg­mál er svo­lítið þessi form­hugsun og Skil I Skjól er meira flæði og náttúra.“

Spurð um hvað sé næst á döfinni segist Ás­laug ekki geta gefið mikið upp en ekki skortir þó verk­efnin. „Það er alls konar á döfinni. Fjöl­breytt verk­efni á næsta ári og bara ýmis­legt skemmti­legt, lítið og stórt.“