Myndlistarmaðurinn Áslaug Íris Katrín er mikilvirk um þessar mundir en hún opnaði tvær sýningar á dögunum. Fréttablaðið heimsótti sýningu hennar Bergmál í Listvali á Granda.
„Fyrir þessa sýningu dró ég fram gömul pappírsverk, svona þriggja ára gömul, sem ég vann út frá ennþá eldra vatnslitamálverki. Mér fannst gaman að handleika þau og koma að þeim aftur og ákvað að það yrði svolítið kjarninn í sýningunni. Ég er alltaf að leika mér með þessi form og þau koma alltaf aftur og aftur inn í verkin mín í gegnum árin,“ segir Áslaug.
Að sögn Áslaugar leikur hún sér að því í sýningunni að láta verkin kallast á og eiga í samtali hvert við annað.
„Ég dró upp skuggamynd eftir málverki, skar svo út negatívurnar á þeim formum sem komu, raðaði svo negatívunum upp á nýtt blað, þar sem urðu til pósitívur og svo koll af kolli,“ segir hún.

Takmarkanir og reglur
Áslaug segist hafa sett sér ákveðnar takmarkanir og reglur í sköpunarferlinu sem hún hafi svo leikið sér með.
„Snúa formunum við og á hvolf, stækka þau og minnka. Oft þegar ég er að skera kannski tvö form út úr sama pappír, þá verður til annað form á milli þeirra. Þetta er eins konar leikur. Þess vegna kalla ég sýninguna Bergmál, því þetta er eins og bergmál úr öllum áttum. Svo fannst mér líka orðið bergmál svo fallegt því ég nota oft steina í verkum mínum og vinn á steindan flöt.“
Verk Áslaugar eru ólík að stærð og gerð en öll eiga þau það sameiginlegt að vinna með óhlutbundið myndmál, eða abstrakt.
„Þegar ég fór að raða þessum litlu verkum upp í röð fannst mér formin verða svolítið eins og bókstafir. Það er líka hugmynd sem ég er alltaf að velta fyrir mér og hef mikinn áhuga á. Hvenær verður abstrakt form að einhverju sem við þekkjum, eins og bókstöfum eða hlutum? Form eins og kúla og ferhyrningur eru kannski allt í einu orðin að vasa.“

Heimsmyndin stækkar
Verkin þín eru abstrakt en þú notar oft hluti í þau eins og steina. Hvernig spilar það inn í óhlutbundna myndmálið?
„Til að byrja með vann ég bara abstrakt en svo hefur þetta bara þróast út í þetta. Það er kannski einmitt þessi hugmynd, hvenær verður eitthvað að einhverjum hlut sem við þekkjum? Það getur líka verið skilningur, þegar maður lærir eitthvað þá getur maður ekki aflært það. Barn sér abstrakt form úti um allt en svo lærir það að þekkja heiminn og þá stækkar heimsmyndin. Mér finnst það svo falleg hugsun.“
Að sögn Áslaugar tengist vinnuferli hennar með pappírsverkunum því svolítið hvernig hún hugsar um heiminn.
„Í pappírsverkunum er ég að raða negatívunum undir pósitívurnar, stundum sést ekki alveg í þau öll en þau eru þarna. Maður veit að þau eru þarna. Það er líka svolítið eins og hvernig við skiljum heiminn. Ég er svolítið að hugsa um lög og filtera. Við stöndum hérna inni og ég er að horfa á húsið hinum megin við götuna en ég er líka að horfa á rýmið hérna inni, gluggann og veðrið úti og allt sem er á milli. Svo er spurning hvað maður ákveður að meðtaka. Það er líka þannig í sambandi við skoðanir í þjóðfélaginu og afstöðu okkar gagnvart hlutunum. Hvað ætlum við að taka mikið inn? Hvað veljum við til þess að búa til heimsmynd okkar?“
Barn sér abstrakt form úti um allt en svo lærir það að þekkja heiminn og þá stækkar heimsmyndin. Mér finnst það svo falleg hugsun.
Teygir sig í ólíkar áttir
Áslaug opnaði nýlega aðra sýningu í Neskirkju sem ber titilinn Skil I Skjól og er töluvert frábrugðin Bergmáli.
Eru þetta ólíkar sýningar?
„Þetta eru mjög ólíkar sýningar fyrir mér, sú sýning er miklu dýpri tilfinningalega og persónulegri. Mér finnst eins og ég sé með þessum tveimur sýningum svolítið að teygja mig sitt í hvora áttina. Þetta er samt allt í eðlilegu flæði við það sem ég er að gera. Bergmál er svolítið þessi formhugsun og Skil I Skjól er meira flæði og náttúra.“
Spurð um hvað sé næst á döfinni segist Áslaug ekki geta gefið mikið upp en ekki skortir þó verkefnin. „Það er alls konar á döfinni. Fjölbreytt verkefni á næsta ári og bara ýmislegt skemmtilegt, lítið og stórt.“