Lili Hinstin, listrænn stjórnandi kvikmyndahátíðarinnar í Locarno í Sviss, tilkynnti í morgun að nýjasta kvikmynd Rúnars Rúnarssonar hafi verið valin í aðalkeppni hátíðarinnar þar sem keppt er um hin eftirsóttu verðlaun Gyllta hlébarðann.

„Ég er fyrst og fremst stoltur af samverkafólki mínu sem hefur vaðið eld og brennistein til að gera Bergmál mögulega,“ segir Rúnar sem hefur verið sigursæll á kvikmyndahátíðum og vakið athygli víða um lönd með hinum margrómuðu og verðlaunuðu bíómyndum Eldfjalli og Þröstum, að ógleymdri stuttmyndinni Síðasti bærinn sem var tilnefnd til Óskarsverðlaunanna.

Leitin að yngsta leikaranum

Fjöldi persóna kemur því eðli málsins samkvæmt við sögu í Echo sem gerist á aðventunni og síðustu dögum ársins 2018. Hver persóna birtist aðeins í einu atriði og í einu þeirra fæðir kona um þrítugt barn með hjálp ljósmóður, að viðstöddum karlmanni á meðan flugeldar springa með látum í bakgrunninum.

Fréttablaðið greindi í upphafi árs frá örvæntingarfullri leit Rúnars og hans fólks í kappi við klukkuna að konu sem væri tilbúin til þess að fæða barn sitt fyrir eitt atriði myndarinnar.

Bergmál er samsafn örsagna úr íslenskum samtíma sem Rúnar fléttar saman á sinn ljóðræna hátt þannig að þær mynda samtímaspegil frá Íslandi í aðdraganda jóla.

„Þessi sena hverfist um það kraftaverk sem barnsfæðing er. Myndavélin hreyfist aldrei þannig að þetta verður skotið á mjög viðeigandi og snyrtilegan hátt, ef svo má segja,“ sagði Vigfús Þormar, sem sá um leikaravalið fyrir Rúnar, í samtali við Fréttablaðið þegar leitin stóð sem hæst.

Umfjöllun Fréttablaðsins bar skjótan árangur og allt fór þetta þó á besta veg. Sara Benediktsdóttir gaf sig fram á elleftu stundu eftir að hafa lesið fréttina og skömmu síðar ól hún hraustan og heilbrigðan dreng, Ragnar Ebba, á meðan Rúnar festi dýrmæt augnablikin á filmu.

„Ég hélt að þetta yrði skrýtið, að hafa kameruna þarna inni í herberginu en svo var ég náttúrlega í einhverjum allt öðrum pælingum þegar á hólminn var komið og var ekkert að pæla í þeim þegar fæðingin var í gangi,“ segir Sara í samtali við Fréttablaðið.

Mikill heiður

„Heimsfrumsýning í aðalkeppni kvikmyndahátíðar í Locarno er mikil heiður fyrir okkur öll sem stöndum að myndinni,“ segir Lilja Ósk Snorradóttir framleiðandi hjá Pegasus. „Bergmál er listrænt djörf en á sama tíma einstaklega falleg og manneskjuleg mynd sem sameinar svo margt. Húmor, sorg og fegurð. Ég leyfi mér að fullyrða að aldrei hefur verið gerð önnur eins kvikmynd, hvað þá jólamynd.“

Bergmál keppir um Gyllta hlébarðann í Sviss í ágúst en fer í almennar sýningar á Íslandi á aðventunni og Rúnar er spenntastur fyrir frumsýningunni hérna. „Mest hlakka ég til að frumsýna Bergmál fyrir fólkið okkar heima á Íslandi í fyrir jól.“