Það er gott að geta gripið í sætindi í hollari kantinum þegar sætindaþörfin kallar. Hér eru á ferðinni guðdómlega mjúkar döðlur fylltar með hnetusmjöri og stökkri möndlu að hætti Berglindar Hreiðars köku- og matarbloggara hjá Gotterí og gersemar (gotteri.is) sem toppar sig enn og aftur með tryllingslega góðum hugmyndum af sætindum.

„Ég notaði ferskar Mazafati döðlur að þessu sinni en þær eru ekki mjög stórar en svo mjúkar og djúsí,“ segir Berglind.

Hollar nammidöðlur

30 bitar

30 stk. ferskar döðlur

180 g gróft hnetusmjör

30 stk. Til hamingju möndlur í hýði

80 g dökkt súkkulaði

Saxaðar Til hamingju pistasíuhnetur

Saxaðar Til hamingju möndlur í hýði

Til hamingju gróft kókosmjöl

Byrjið á því að skera rauf í döðlurnar og fjarlægja steininn. Hrærið hnetusmjörið upp og skiptið á milli daðlanna. Gott er að nota sprautupoka en klippa ágætlega stórt gat á endann.

Stingið næst einni möndlu ofan í hnetusmjörið á hverri döðlu, allt í lagi þó það sjáist í möndluna, bara að hún festist. Stingið í frysti á meðan annað er undirbúið. Saxið niður pistasíuhnetur og möndlur og bræðið dökka súkkulaðið. Takið döðlurnar úr frystinum, rennið súkkulaði yfir þær og stráið næst söxuðum hnetum, möndlum og kókosmjöli yfir þær til skiptis. Geymið í kæli eða frysti og njótið þegar sætindaþörfin kallar.