Óaðfinnanleg heimili, fagurskapaðir líkamar í fullkominni lýsingu, girnilegar máltíðir og stöðug frí á framandi stöðum eru á útleið í heimi samfélagsmiðlanna, ef marka má tölfræði frá Apple. Tölurnar sýna að ný kynslóð samfélagsmiðla sem gerir út á raunsanna endurspeglun á lífi fólks, er á hraðri uppleið. Í maí, fáeinum dögum eftir að samfélagsmiðillinn Poparazzi varð aðgengilegur almenningi, skaust hann upp í toppsætið yfir vinsælustu smáforritin, og flaug þar yfir TikTok og Youtube.

Þessi nýju smáforrit eru ólík eldri samfélagsmiðlum hvað grunnþætti varðar. Instagram leggur áherslu á einstaklinginn sem alvald yfir sínum eigin litla fjölmiðli, á meðan miðlar á borð við BeReal, Poparazzi og NewNew eru samfélagslegri, samfélags-miðlar í orðsins fyllstu merkingu og ganga út á samvinnu og samfélag en ekki sigur með „lækum.“ Á BeReal er ekki áhersla á „læk“. Áskrifendur fá meldingar yfir daginn þar sem þeir eiga að taka mynd og deila með öðrum, án nokkurra möguleika á eftirvinnslu eða fegrun. Þeir sem gera fleiri en eina tilraun til að taka af sér mynd þurfa að sætta sig við að fjöldi tilrauna birtist með myndinni og er öllum sýnilegur. Á BeReal eru ekki hefðbundnir fylgjendur, eða það sem einhverjir gætu kallað, tálsýn um samfélagslega viðurkenningu á forsendum forritsins.

Vakning varðandi líðan notenda

Þetta endurspeglar hugsanlega tíðarandann, en Josh Constine hjá bandaríska fjárfestingafyrirtækinu SignalFire segir í sambandi við Vogue Business: „eftir erfitt ár eru stjórnendur samfélagsmiðla að vakna til vitundar um mikilvægi þess að fólki líði vel. Það þarf að virða mörk.“

Eftir erfitt ár eru stjórnendur samfélagsmiðla að vakna til vitundar um mikilvægi þess að fólk líði vel.

Hann bætir við að yngsta kynslóð notenda sé meðvituð um þessa hluti. „Þau spegla sig í vinum sínum, ekki bara í gegnum það sem vinirnir eru að gera heldur í gegnum fólkið sem þeir umgangast. Næsta tískubylgja í þróun samfélagsmiðlaforrita mun snúast um sameiginlega reynslu, þar sem fólk upplifir sig sem hluta af hópi.“

Hugsanlega er þessi þróun svar við rannsóknum sem benda til þess að notkun samfélagsmiðla á borð við Instagram hafi neikvæð áhrif á geðheilsu ungmenna. Stór rannsókn sem Facebook (nú Meta) stóð fyrir fyrr á þessu ári bendir til þess að ein af hverjum þremur unglingsstúlkum upplifi líkama sína síðri, eftir að hafa flett í gegnum Instagram. Rannsóknin var gerð í tengslum við þróun á Instagram útgáfu fyrir börn.

Samfélagsmiðlastjarnan Kylie Jenner stillir sér upp með aðdáanda.
Mynd/Getty

Með vaxandi áherslu á samfélagsþáttinn, hjá samfélagsmiðlum af nýrri kynslóð, er komin upp ný staða gagnvart fyrirtækjum sem reiða sig á áhrifavalda, þar sem starf áhrifavaldsins gengur upp á að stilla upp fegraðri útgáfu af eigin lífi, eða hreinlega spinna upp líf sem ekki er til, í því skyni að selja fylgjendum vörur og hugmyndir. Fylgjendatalan á miðlum á borð við Instagram og Tiktok er þannig gríðarlega verðmæt og miklir fjármunir í húfi.

Sem stendur eru stærstu samfélagsmiðlarnir af þessari nýju kynslóð Poparazzi, NewNew og BeReal, en síðastnefnda smáforritið hefur rutt sér rúms hér á landi og notendum fjölgar hratt, þó væntanlega hraðast meðal yngri notenda.

Skemmtilega leiðinlegar myndir

Freyja Sóllilja Sverrisdóttir er 25 ára nemi við Háskóla Íslands, sem notar BeReal daglega. „Mér finnst skemmtilegast að allir séu að pósta svolítið leiðinlegum myndum,“ segir hún og hlær. „Þetta eru svona hversdagslegar myndir. Fólk að tjilla uppi í rúmi eða úti að labba,“ segir hún. Hún bætir við að það sé fyndið að sjá hvað allir eru að gera á nákvæmlega sama tíma, og segir að upplifunin af forritinu sé nánara samfélag en til dæmis á Instagram.

„Þarna er fólk á mismunandi stöðum í heiminum. Það er skemmtilegt að sjá hvað fólk er að gera, án þess að maður sé að tékka á þeim,“ segir hún. Hún bendir við að fólk á öðrum miðlum sé ekki endilega að pósta því sem það er raunverulega að gera.

Mynd sem systir Freyju Sóllilju tók á Bereal.
Mynd/Aðsend/BeReal

Hún segist hafa byrjað að nota BeReal þann 8. október síðastliðinn. „Bekkurinn minn var í eftirprófsgalsa. Við vorum fyrst svona fimm en svo bættust fleiri og fleiri við,“ segir hún.

Hún segir að melding frá forritinu komi á handahófskenndum tímum. Þá taki notandi upp símann og taki mynd af því sem er fyrir framan hann, og svo selfie. Notandinn hefur tvær mínútur til að klára. „Ef þú ert seinn, þá stendur hversu seinn þú varst, ef þú opnaðir símann ekki á réttum tíma.“

Þannig útilokar forritið möguleikann á því að stilla upp, farða sig og laga lýsingu og umhverfi, án þess að það sé hægt að sjá tímann sem fyrirhöfnin tók.

Mynd sem Freyja Sóllilja tók á BeReal.
Mynd/Aðsend/BeReal

„Það er fyndið, að maður sér að þeir sem eru alltaf seinir eru líka alltaf að gera eitthvað áhugavert,“ segir hún og hlær. „Maður sér þannig hverjir þora ekki að vera þeir sjálfir.“

Aðspurð efast hún um að forritið taki við af Instagram. „Þetta verða bara tveir hópar. Þetta er sitt hvort konseptið. Þú ert feik á Instagram og fólk veit það alveg,“ segir hún. Hún bætir við að kostur við BeReal sé að notandinn eyði ekki miklum tíma þar inni.