Merkilega hljótt hefur verið tónlistarmanninn Benedikt Hermann Hermannsson, lang best þekktan sem Benna Hemm Hemm, á síðustu árum í ljósi þess hversu frekur hann var til fjörsins á fyrstu árum aldarinnar.

Á föstudaginn rýfur hann áralangt tónleikahlé á Hressingarskálanum með nýrri hljómsveit og glás af nýju efni, meðal annars laginu Miklabraut, af væntanlegri plötu, og er þegar byrjað að hljóma á rafrænum ljósvakaöldum

„Ég fékk svolítið nóg af vinnunni minni fyrir nokkrum árum, bæði því að sinna tónlistinni og tónlistarbransanum og bara öllu saman,“ segir Benni, sem lagði þó ekki árar alveg í bát þar sem hann hefur kennt tónlist bæði á Seyðisfirði og í Vesturbæ Reykjavíkur öll þessi ár.

Benni var valin „bjartasta vonin“ á Íslensku tónlistarverðlaunum 2005 en fékk síðar að kenna á kulnun löngu áður en hún var dregin fram í dagsljós umræðunnar.

„Ég forðaðist að spila á tónleikum og vekja athygli á mér og tónlistinni minni og reyndi eiginlega að gera sem minnst af öllu nema því að semja tónlist og taka hana upp,“ heldur Benni áfram og furðar sig hálfpartinn á því að það hafi „einhvern veginn alltaf hangið inni.“

Benni segir að hugsanlega megi heyra það einna skýrast á síðustu plötunni hans, FALL, að hann hafi ekki verið að sækjast eftir sambandi við fólk. „Ég gleymdi því til dæmis ítrekað að sú plata væri komin út en væri ekki bara í tölvunni minni.“

Fékk eldingu í höfuðið

„Þannig að ég hef verið að gera tónlist en hef hálfpartinn verið einn inni í herbergi eins og unglingur að fela sig í fjölskylduboði. Líklega er þetta einhverskonar unglingaveiki atvinnutónlistarmannsins,“ segir Benni sem hrökk skyndilega í gírinn þegar hann fékk það sem hann kallar „eldingu í höfuðið“ ekki alls fyrir löngu.

„Í kjölfarið vissi ég nákvæmlega hvað ég ætti að gera og fór að semja og taka upp eins og brjálæðingur og hef verið að því síðan.“ Stuðið á honum hefur verið slíkt að það hefur safnast upp „alveg svakalega mikið efni“ þannig að nú er tími til kominn að tengja. Og tappa af.

„Ég hef þörf fyrir að tengjast fólki í gegnum tónlistina og mér finnst ég hafa eitthvað fram að færa sem hefur einhverja merkingu og tilgang,“ segir Benni sem þurfti þó aðeins að ná áttum og finna hentugan farveg fyrir þetta magn af tónlist sem hafði hrúgast upp hjá honum.

Gríman fellur

„En með því að fá sjónarhorn annarra sá ég að hluti af þessari tónlist væri Benna Hemm Hemm plata og þá sá ég líka hvernig ég ætti að vera að gera þetta og það er nýlunda að nú sést framan í þennan Benna Hemm Hemm,“ segir Benni og bætir við að hingað til hafi hann einmitt alltaf forðast það eins og heitan eldinn.

„Ég hef gefið út undir öðru nafni og enginn hefur heyrt það. Það eru þrjár þannig plötur komnar út á þessu ári. Þetta er auðvitað galið, en meikar einhvern veginn alveg sens og er mjög skemmtilegt. En á næsta ári kemur út hellingur af nýrri Benna Hemm Hemm tónlist.“

Benni segist aðspurður ekki vera alveg viss um að þetta marki einhverja stefnubreytingu í tónlistinni hjá honum. Vissulega sé um mikla stefnubreytingu frá FALL, sem kom út í fyrra að ræða og sjálfum finnst honum breytingin frá „gamla BHH stöffinu“ mikil. „En öðrum finnst þetta algjörlega sjálfsagt framhald,“ segir hann og bendir á að líklega sé hann síst til þess fallin að svara þessari spurningu.

Draslið flokkað

Hins vegar hafi hann áttað sig á því að með allt þetta efni í höndunum „get ég púslað lögum fram og til baka, hent lögum ef þau passa ekki inn, safnað á aðra plötu eða gert þetta bara eins og mér sýnist.“

Benni segist einnig hafa gert sér grein fyrir að hann hafi yfirleitt enga hugmynd um hver laga hans fólk kveiki á undir eins. „Og hvaða lög það eru sem öllum finnst vera tóm steypa.“

Þessu fylgi dálítið breytt vinnulag þannig að „ég geri bara ógeðslega mikið og fæ svo hjálp við að vinsa draslið úr og pússa svo til það sem er almennilegt. Það er fáránlega skemmtilegt að gera þetta svona,“ segir endurnýjaður Benni Hemm Hemm „svakalega spenntur“ fyrir að hefja tónleikahald á ný.

Gapandi gott band

Hann ætlar að rjúfa þetta árlanga hlé frá tónleikahaldi á Hressingarskálanum á föstudagskvöld, 25. október.

„Ég hóaði í það tónlistarfólk sem ég hef hlustað gapandi á upp á síðkastið og hef eiginlega þurft að klípa mig daglega í handlegginn til þess að ganga úr skugga um að það sé raunverulega að gerast að allt þetta mangaða fólk sé í hljómsveitinni minni,“ segir Benni í bandinu með honum eru:

Ingibjörg Elsa Turchi bassaleikari, Hróðmar Sigurðsson gítarleikari, Páll Ivan frá Eiðum, sem spilar á baritóngítar, Ívar Pétur Kjartansson á trommum, Elsa Kristín Sigurðardóttir á kornett, Kári Hólmar Ragnarsson, á básúnu og hljómborð, Ingi Garðar Erlendsson básúnuleikari, Tumi Árnason, á saxófón og harmónikku og píanóleikarinn Margrét Arnardóttir.

Tónleikarnir hefjast klukkan 21 á föstudagskvöld og hægt er að kaupa miða á Tix.is.