Þar sem heimsfaraldurinn gerði það ómögulegt að halda Iceland Airwaves-tónlistarhátíðina í ár ákváðu skipuleggjendurnir að standa fyrir beinu streymi af tónleikum nokkurra íslenskra tónlistarmanna og senda það út bæði á vefnum og RÚV. Það var mikil ánægja með viðburðinn, bæði meðal tónlistarmanna og áhorfenda, og hann fékk mikið áhorf. Ísleifur Þórhallsson, framkvæmdastjóri Iceland Airwaves, segir að nú sé stefnt á að halda aðrar minni streymishátíðir meðfram aðalhátíðinni sjálfri og hann telur að beint streymi verði varanlegur hluti af tónleikahaldi.

„Í heildina gekk þetta rosalega vel. Það voru allir gríðarlega ánægðir með þetta og við höfum fengið mjög mikið af jákvæðum viðbrögðum frá almenningi og aðdáendum Airwaves og íslenskrar tónlistar um allan heim,“ segir Ísleifur. „Við höfum líka heyrt frá mörgu bransafólki sem hefur verið mjög ánægt, erlendir fjölmiðlar hafa gefið lofsamlegar umsagnir og jafnvel talað um að þetta hafi sett nýjan standard.

Fólk kunni að meta uppsetninguna, hvað þetta var einfalt og einlægt. Fólk hafði líka gaman af því að hafa þetta inni á tónleikastöðum sem allir þekkja frá Iceland Airwaves, þannig að fólk fékk svona nasaþef af Íslandi og andi hátíðarinnar var færður heim í stofu. Margir áhorfendur töluðu mikið um að sakna Íslands og að þetta hefði hjálpað aðeins með það,“ segir Ísleifur. „Það voru allir hrifnir af því og hrósuðu því hvað þetta var laust við flækjur, einfalt og bara gott.

Svo eru þetta náttúrlega svo miklir snillingar þessir listamenn að við þurfum lítið annað að gera en að ná þeim saman og gefa þeim tækifæri til að flytja sína tónlist þannig að þeim líði vel og þá verða til töfrar. Fólk furðar sig endalaust á því hvernig svona mikið af góðum tónlistarmönnum koma frá svona lítilli þjóð,“ segir Ísleifur.

Um 90 þúsund áhorfendur

„Um 4.000 miðar seldust erlendis og við áætlum að að meðaltali hafi þrír horft á hvert streymi, þannig að alls hafi um 12 þúsund manns horft í útlöndum. Þar af fóru 400 miðar beint til bransafólks sem við erum í sambandi við,“ segir Ísleifur. „Síðustu ár hafa 8–10 þúsund manns sótt hátíðina á ári, meirihlutinn erlendir gestir, þannig að það voru líklega fleiri áhorfendur núna. Yfirleitt koma um 300–500 manns úr bransanum þannig að við vorum að minnsta kosti með jafn marga og líklega fleiri.

Þetta var svo líka sýnt ókeypis á RÚV og 22% landsmanna horfði í fimm mínútur eða meira, sem samsvarar um 80 þúsund manns. Þannig að það voru 80 þúsund hér heima og um 12 þúsund manns erlendis að fylgjast með. Það er ansi góð tölfræði,“ segir Ísleifur.

Ísleifur segir að það hafi verið gríðarlega mikil ánægja með Live from Reykjavík viðburðinn, bæði hjá listamönnun, áhorfendum, starfsfólki og skipuleggjendum. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

„Við vissum ekkert hvernig miðasalan yrði erlendis og það er erfitt að segja hvort salan hafi verið góð eða slæm því þetta er alveg nýtt fyrirkomulag og tilraun. En við erum mjög ánægð með söluna,“ segir Ísleifur. „Aðaltilgangurinn með þessu var líka að búa til störf í bransanum, kynna Ísland og íslenska tónlistarmenn og minna á Airwaves og öll umfjöllunin er mikils virði. Stórkostleg gagnrýni á vef NME eftir hátíðina er gott dæmi, það eru margir sem sjá hana en sáu ekki hátíðina en fá nú áhuga á Íslandi og Airwaves. Þannig að öllum markmiðum okkar var náð.“

Bara hægt á Íslandi

„Þegar við sáum endanlega að það væri ekki hægt að halda Airwaves færðum við hátíðina á næsta ár í heilu lagi. En við vildum gera eitthvað frekar en ekkert og ákváðum því að standa fyrir streymi til að snúa vörn í sókn,“ segir Ísleifur. Við skipulögðum þetta í hvelli og hlupum af stað og fengum ýmsa styrki. Listamenn stukku svo líka á hugmyndina og fyrr en varði vorum við komin á framkvæmdastigið.

Erlent bransafólk hefur talað um að það væri hvergi hægt að gera þetta nema á Íslandi og í umfjöllun NME var talað um samfélagsandann sem þarf til að bregðast svona hratt við, smala öllum saman og láta þetta gerast,“ segir Ísleifur. „Það þarf mikla samstöðu og það voru allir tilbúnir að hlaupa í verkin.

Það er líka einstakt að allt þetta listafólk sé hér á Íslandi á sama tíma eins og núna, það gerist örugglega aldrei aftur. Oft eru þau búsett erlendis eða að túra um heiminn, en þau komu sér heim til að bíða þetta ástand af sér í örygginu hér,“ segir Ísleifur.

„Það kemur náttúrlega ekkert í staðinn fyrir Airwaves, það er töfrandi hátíð sem á sér engan líka í heiminum. En það var svakalega gaman að geta smalað saman svona ótrúlegu úrvali af listamönnum, senda þá út um allan heim með hjálp tækninnar og gefa landsmönnum líka aðgang að því á RÚV!“ segir Ísleifur. „Tónlistarmennirnir hafa líka verið virkilega ánægðir með þetta. Frá byrjun hafa þeir verið þakklátir fyrir að fá að koma og spila, þó það sé bara fyrir myndavélina. Það fannst öllum gaman að fá loksins að halda tónleika aftur, ekki bara listamönnunum, heldur öllu teyminu okkar.“

Stefna á að halda minni streymishátíðir

„Þetta hefur verið ótrúlega lærdómsríkt og ég tel að beint streymi af þessu tagi sé komið til að vera og verði áfram hluti af viðburðum, þrátt fyrir að það komi bóluefni gegn COVID,“ segir Ísleifur. „Ég veit ekki alveg hvernig útfærslurnar verða, en ég held að það verði svo til fastur liður að hafa þennan möguleika þannig að fólk geti annaðhvort verið á staðnum eða keypt streymi, eða keypt streymi þegar það er uppselt eða eitthvað slíkt.

Við stefnum líka á að halda fleiri minni streymishátíðir. Framtíðarsýnin er sú að Airwaves verði áfram í fjóra daga einu sinni á ári í Reykjavík og hún verði jafnvel blönduð, með beint streymi í bland við hefðbundna tónleika,“ segir Ísleifur. „Svo verða reglulega haldnar litlar streymishátíðir inni á milli.“

Uppsöfnuð þörf fyrir tónleika á næsta ári

„Það verður svo bara venjuleg Iceland Airwaves-hátíð á næsta ári. Við frestuðum dagskránni sem var í ár í heilu lagi um eitt ár og fyrirhugum engar stórar breytingar á henni því hún hefur verið að virka mjög vel síðustu tvö ár. Við teljum okkur hafa formúlu til að gera hátíðina þannig að allir séu ánægðir án þess að tapa peningum,“ segir Ísleifur. „Við ætlum því ekki að gera neinar stórkostlegar breytingar á rekstrinum, fyrir utan að við gætum bætt beinu streymi við. En þegar hlutirnir komast í gang aftur munum við bóka fleiri bönd og tilkynna þau.

Ég held að tónleikahald og sviðslistabransinn komist af stað á næsta ári, en það er bara spurning nákvæmlega hvenær. Það tekur svo tíma að komast á fullt skrið, því það þarf að skipuleggja allt með fyrirvara. Þá held ég að það verði bæði uppsöfnuð þörf hjá listamönnum að spila og hjá fólki að fara á tónleika, þannig að það verður extra mikið framboð og eftirspurn,“ segir Ísleifur. „En það verður kannski ekki allt nákvæmlega eins og það var. Það þarf kannski meira pláss eða bætta loftræstingu. Við munum einfaldlega gera allt sem þarf til að fara eftir reglum og tryggja að gestum líði vel og séu öryggir. Öryggi og vellíðan gestanna er alltaf númer eitt, tvö og þrjú hjá okkur.“