Engin beikonhátíð verður haldin í Reykjavík í ár, eins og tíðkast hefur undanfarin ár. Árni Georgsson, einn skipuleggjandi hátíðarinnar, segir að samningur hafi verið gerður til þriggja ára við Reykjavíkurborg um að halda hátíðina árlega, en að hann sé nú runninn úr gildi.

Ekki sé þó þar með sagt að hátíðin, sem byrjaði sem beikonhátíð en þróaðist í almenna matarhátíð, sé dauð úr öllum æðum.

„Beikon tengir saman fólk og það er alltaf skemmtilegt að halda hátíðir, svo við sjáum hvað verður,“ segir hann.

Hátíðin hefur verið haldin árlega í ágúst eða september á Skólavörðustíg og hana hafa sótt allt að 50 þúsund manns, bæði íslenskir og erlendir gestir. „Við urðum að fresta vegna Covid á síðasta ári og svo verður ekkert núna, en vonandi lifnar hátíðin aftur til lífsins síðar,“ segir Árni.