Knattspyrnustjarnan fyrrverandi David Beckham hefur verið settur í sex mánaða akstursbann eftir að hann var gómaður í símanum undir stýri.

Beckham hafði áður fengið punkta á ökuleyfið sitt fyrir hraðakstur, en í kjölfar þess að hann var gripinn með símann við akstur á hann yfir höfði sér fyrrgreint bann.

BBC greinir frá því að Beckham hafi verið að aka Bentley-bíl sínum í vesturhluta Lundúna þann 21. nóvember síðastliðinn þegar árvökull vegfarandi tók eftir því að hann virtist veita kjöltu sinni meiri athyglinni en umferðinni, og náðist mynd af knattspyrnuhetjunni með símann í hönd.

Lögmaður Davids kvað að Beckham myndi ekki eftir atvikinu, en að þar sem ljósmynd lægi til grundvallar myndi hann játa sekt sína, sem hann og gerði.

Beckham lék lengst af með Manchester United og enska landsliðinu. Síðar á ferlinum lék hann fyrir Real Madrid, LA Galaxy og loks PSG. Fregnir herma að hann reyni nú að koma á stað fótboltaliði í Miami-borg í Flórída til að keppa í bandarísku MLS-deildinni.