Ævintýramaðurinn Edward Michael Grylls, betur þekktur sem Bear Grylls. sem gat sér frægð fyrir að takast á við náttúruna í raunveruleikaþáttunum Man vs. Wild árin 2006 til 2011 er á leiðinni á Netflix í nýjum þáttum sem verða í anda Bandersnatch myndarinnar sem kom út á streymisveituna í desember en hægt verður að taka ákvarðanir fyrir kappann þar sem hann tekur sér fyrir hendur ýmis ævintýri í náttúrunni.

„Ég er á leiðinni í mitt stærsta ævintýri til þessa og í þetta skiptið munt þú ráða ferðinni,“ segir Grylls í fyrstu stiklunni sem má sjá hér að neðan. „Svo pakkaðu saman, af því að allir frumskógar, eyðimerkur og fjöll sem ég verð á, verða þínar ákvarðanir mínar ákvarðanir. Þú ræður hvað ég geri.“

Líkt og áður segir er um annað skiptið að ræða sem að Netflix býður upp á slíka valkvæða þætti en í myndinni Black Mirror: Bandersnatch gefst áhorfendum kostur á að taka ákvarðanir fyrir aðalpersónuna sem leiða til mismunandi atburðarásar. Umræddir þættir með Bear Grylls munu bera heitið You vs. Wild og koma út á Netflix þann 11. apríl næstkomandi.

Prófa má gagnvirka stiklu hér fyrir neðan.