Breska ríkis­sjón­varpið hefur svipt hulunni af Euro­vision sviðinu, en ár­lega bíða Euro­vision þyrstir að­dá­endur keppninnar í of­væni eftir af­hjúpuninni. Miðað við fyrstu myndir og mynd­band má leiða líkur að því að engu hafi verið til sparað þar sem um­gjörðin er hin glæsi­legasta. BBC greinir frá.

Full­trúar þrjá­tíu og sjö landa munu stíga á stokk í keppninni í ár, sem haldin er í bítlaborginni Liverpool í Bretlandi 9.-13. maí, og freista þess að vinna hug og hjörtu Evrópu. Á­ætlað er að um 180 milljónir manna horfi á keppnina ár hvert.

Að sögn sviðs­mynda­hönnuðar keppninnar, Julio Himede, er sviðs­myndin byggð á grunn­gildunum sam­heldni, fögnuður og sam­fé­lag.

„Arki­tektúrinn sækir inn­blástur í stórt og mikið faðm­lag. Við opnum faðm okkar fyrir Úkraínu, þátt­tak­endum keppninnar og gestum hvaða­næva úr heiminum. Ég einblíndi helst á menningar­legu hliðarnar og líkindin milli Úkraínu, Bret­lands og þá sér­stak­lega Liver­pool. Allt frá tón­list, dansi og listum til byggingar­listar og ljóða,“ segir Himede.

Himede er hokinn af reynslu þegar kemur að því að vinna að slíkum við­burðum, á borð við Gram­my verð­launin og Evrópsku tón­listar­verð­laun sjón­varps­stöðvarinnar MTV.

„Það er skylda okkar sem hönnuðir að lyfta flutningi listamannanna á hærra plan, með hrífandi sjón­rænu lands­lagi, og með því fanga hjarta og sál Euro­vision keppninnar,“ segir Himede.

Sviðið er einstaklega tilkomumikið svo ekki sé meira sagt, en það er rúmlega 450 metrar að stærð með tæplega 220 fermetrum af hreyfanlegum skjám. Í gólfi eru svo yfir 700 flísar með inn­byggðum skjám og meira en 1500 metrum af Led ljósum.

„Við vildum sviðsmynd sem fólk á eftir að muna eftir í fleiri ár,“ segir Andrew Cart­mell, fram­kvæmda­stjóri keppninnar.

„Það er svo mikil­vægt að sendi­nefndir allra landa hafi sem mest rými til að vinna með og býður upp á sem flesta mögu­leika,“ bætir hann við.

Himede segir það sann­kallaðan heiður að hafa fengið tæki­færi til að hanna sviðs­myndina fyrir keppnina í ár.

„Ég er for­fallinn að­dáandi Eurovision og hef verið í lengri tíma. Það er svo spennandi að hugsa til þess að svo fjöl­breyttur og hæfi­leika­ríkur hópur lista­manna muni koma fram á sviðinu mínu og ég er spenntur að af­henda list­ræna kyndilinn því landi sem stendur uppi sem sigur­vegari í maí,“ segir hann.