Breska ríkissjónvarpið hefur svipt hulunni af Eurovision sviðinu, en árlega bíða Eurovision þyrstir aðdáendur keppninnar í ofvæni eftir afhjúpuninni. Miðað við fyrstu myndir og myndband má leiða líkur að því að engu hafi verið til sparað þar sem umgjörðin er hin glæsilegasta. BBC greinir frá.
Fulltrúar þrjátíu og sjö landa munu stíga á stokk í keppninni í ár, sem haldin er í bítlaborginni Liverpool í Bretlandi 9.-13. maí, og freista þess að vinna hug og hjörtu Evrópu. Áætlað er að um 180 milljónir manna horfi á keppnina ár hvert.
Að sögn sviðsmyndahönnuðar keppninnar, Julio Himede, er sviðsmyndin byggð á grunngildunum samheldni, fögnuður og samfélag.
„Arkitektúrinn sækir innblástur í stórt og mikið faðmlag. Við opnum faðm okkar fyrir Úkraínu, þátttakendum keppninnar og gestum hvaðanæva úr heiminum. Ég einblíndi helst á menningarlegu hliðarnar og líkindin milli Úkraínu, Bretlands og þá sérstaklega Liverpool. Allt frá tónlist, dansi og listum til byggingarlistar og ljóða,“ segir Himede.
Himede er hokinn af reynslu þegar kemur að því að vinna að slíkum viðburðum, á borð við Grammy verðlaunin og Evrópsku tónlistarverðlaun sjónvarpsstöðvarinnar MTV.
„Það er skylda okkar sem hönnuðir að lyfta flutningi listamannanna á hærra plan, með hrífandi sjónrænu landslagi, og með því fanga hjarta og sál Eurovision keppninnar,“ segir Himede.
Sviðið er einstaklega tilkomumikið svo ekki sé meira sagt, en það er rúmlega 450 metrar að stærð með tæplega 220 fermetrum af hreyfanlegum skjám. Í gólfi eru svo yfir 700 flísar með innbyggðum skjám og meira en 1500 metrum af Led ljósum.
„Við vildum sviðsmynd sem fólk á eftir að muna eftir í fleiri ár,“ segir Andrew Cartmell, framkvæmdastjóri keppninnar.
„Það er svo mikilvægt að sendinefndir allra landa hafi sem mest rými til að vinna með og býður upp á sem flesta möguleika,“ bætir hann við.
Himede segir það sannkallaðan heiður að hafa fengið tækifæri til að hanna sviðsmyndina fyrir keppnina í ár.
„Ég er forfallinn aðdáandi Eurovision og hef verið í lengri tíma. Það er svo spennandi að hugsa til þess að svo fjölbreyttur og hæfileikaríkur hópur listamanna muni koma fram á sviðinu mínu og ég er spenntur að afhenda listræna kyndilinn því landi sem stendur uppi sem sigurvegari í maí,“ segir hann.