Marentza Poulsen er alla jafna kölluð smurbrauðsdrottning Íslands. Marentza er annálaður matgæðingur og mikill fagurkeri. Hún er þekkt fyrir að bera allan mat fallega fram á borð enda segir hún að við byrjum ávallt að borða með augunum, að fanga augað sé galdurinn sem skipti sköpun maturinn er borinn fram.
Marentza heldur mikið í íslenskar matarhefðir og siði þó hún sé frá Færeyjum og hefur mikla ástríðu fyrir íslenskri matargerð. Hún heldur upp á allar matarhefðir og þar á meðal þær sem fylgja sprengidegi og þá er það baunasúpan sem er í aðalhlutverki. Saltkjöt og baunir er íslenskur réttur sem er á borðum á fjölmörgum íslenskum heimilum á sprengidag og hefur verið í áranna rás.
„Ég hef unun af því að elda og finnst afar heimilislegt að elda klassískan íslenskan mat. Þar eru saltkjöt og baunir engin undantekning og grunninn af uppskriftinni af minni baunasúpu fékk ég í matreiðslubókinni hennar Helgu Sigurðardóttur Matur og Drykkur. Þessi bók er fjársjóður um íslenska matargerð,“ segir Marentza.
Marentza býður hér upp á saltkjöt og baunasúpu eins og hún lagar hana fyrir sig og sína að sinni alkunnu snilld.
Saltkjöt og baunir – túkall að hætti Marentzu
2-3 l vatn
400 g gular baunir
2 stk. meðalstórir laukar
4 stk. frekar stórar gulrætur
1-2 stk. rófur
1 kg saltkjöt
4 sneiðar beikon.
1 tsk. Best á lambið krydd
Baunirnar eru skolaðar og síðan lagðar í varnið yfir nótt. Baunirnar eru soðnar í vatninu í klukkutíma eða lengur við vægan hita, þegar suðan er komin upp er froðan veidd ofan af baununum og muna að hræra í pottinum af og til á meðan baunirnar eru að sjóða Laukurinn er skorinn til helminga og síðan í sneiðar, hann er settur saman við baunasoðið ásamt kryddinu, beikoninu sem er skorið í bita og einum eða tveimur saltkjötsbitum sem er látið malla með það gerir allt fyrir súpuna að mínu mati. Restin af kjötinu er sett í annan pott og láti sjóða í eina klukkustund, það getur verið gott að skræla einn lauk og setja hann heilan út í pottinn með kjötinu. Gulrætur og rófur eru skrældar og skornar í bita og helst gufusoðnar svo að þær missi ekki bragði. Þegar baunirnar eru soðnar eða orðnar mjúkar er kjötið tekið upp úr og skorið í bita og sett út í baunasúpuna ásamt grænmetinu og restinni af soðna saltkjötinu það fer auðvitað eftir smekk hvers og einn hvað hann vill hafa mikið kjöt í súpunni. Mér finnst gott að bæta gufusoðnu brokkolí og blaðlauk ásamt saxaðri steinselju út í súpuna áður en hún er borin fram.
