Guðrún Kristinsdóttir hjúkrunarfræðingur sló aldeilis í gegn þegar hún bauð óvart rúmlega hundrað þúsund manns í saumaklúbbinn sinn. Þá setti hún óvart færslu inn í Facebook grúppuna Gefins, allt gefins þar sem hún lagði til að það væri kominn tími á saumaklúbb.

„Eigum við ekki að fara að hittast? Mér finnst alveg kominn tími á saumaklúbb, Dóra María hélt síðast. Viljum við halda okkur við stafrófið eða vill einhver sjálfboðaliði hafa næsta klúbb?“ skrifaði Guðrún áður en hún áttaði sig á því að hún hafi ruglast á hópum.

„OK þetta fór í vitlausan hóp en verður ekki bara stór saumaklúbbur á Arnarhólnum á föstudagskvöldið? Þetta er það mömmulegasta sem ég hef gert, segja krakkarnir mínir,“ bætti Guðrún við.

Svo virðist sem Íslendingar hafi tekið aldeilis vel í tillögu Guðrúnar. Athugasemdirnar eru margar vægast sagt sprenghlægilegar.

„Ég er búin að vera að lesa þetta og fjölskyldan er í kasti yfir þessu klúðri hjá mér,“ segir Guðrún í samtali við Fréttablaðið.

„Það er bara gott að geta skemmt fólki,“ bætir hún við og hlær.

„Krökkunum mínum finnst þetta drepfyndið. Þau vita að ég er ekki sú allra klárasta á síma og tölvur. Ég var einstakleg heppin að vera í 100 þúsund manna hóp þegar ég ruglaðist.“

Það mætti segja að saumaklúbburinn hennar Guðrúnar sé orðinn frægasti saumaklúbbur landsins. Guðrún segir að saumaklúbburinn hafi fyrst komið saman fyrir um 30 árum en þær eru allar hjúkrunarfræðingar.

Guðrún starfar sjálf sem hjúkrunarfræðingur á Grensásdeild Landspítalans.

„Við vorum allar saman í hjúkrun. Þeim finnst þetta náttúrulega drepfyndið,“ segir Guðrún.

Efna til saumaklúbbs á Arnarhóli

Þá hafa ótalmargir boðist til að mæta með veitingar og aðrir að sjá um að redda tónlistaratriðum. Þónokkrir segja að best væri að halda sig við stafrófið eins og Guðrún leggur til en aðrir hafa boðist til að halda næsta klúbb.

Íris Sif Kristjánsdóttir var sú fyrsta til að skrifa athugasemd við færsluna og sagði: „Þú ætlaðir alveg örugglega ekki að bjóða allri Gefins grúppunni í saumaklúbb.“

Eftir það fór boltinn að rúlla. Rúmlega tvö þúsund manns hafa líkað við færsluna og um 760 manns sett athugasemd við tillöguna og enn bætast við athugasemdir meðan þessi frétt er skrifuð.

Hrönn Hjálmars leggur til að halda Bingó. Einar Ragnar Haraldsson segist ætla að kaupa flug frá Danmörku til að mæta.

Heiða Dögg Liljudóttir skrifar: „Guðrún Kristinsdóttir þú ert ástæðan fyrir því að ég elska internetið. Dagurinn minn er svo miklu betri hér eftir.“

Karl Lilliendahl Viggósson tók meira að segja upp á því að gera viðburðarsíðu í nafni Guðrúnar.

Lagt er til að stærsti saumaklúbbur landsins hittist á Arnarhóli laugardaginn 2. nóvember frá klukkan 14 til 17.

Guðrún ætlar sjálf að mæta á viðburðinn ásamt upprunalega saumaklúbbnum.