Bassi Maraj, ein skærasta samfélagsmiðlastjarna landsins, treður upp á Húkkaraballi og tónleikum föstudagskvöldsins á Þjóðhátíð og mun magna upp það sem hann kallar „a ho experience“ og er, ef að líkum lætur, engu líkt.

Lengi er von á einum. Í það minnsta í Eyjum þar sem ný nöfn eru enn að bætast við nú þegar langan lista tónlistarfólks sem mun skemmta gestum Þjóðhátíðar um verslunarmannahelgina.

Sjálfur Bassi Maraj, raunveruleikastjarna og tónlistarmaður, er bókaður í tvígang á hátíðina þar sem hann mun troða upp á Húkkaraballinu á fimmtudagskvöldinu og svo aftur á tónleikum föstudagskvöldsins.

Sérstök reynsla

Bassi hefur hingað til aðeins kynnst Þjóðhátíð sem gestur þar sem hann stígur, eðli málsins samkvæmt, á svið sem skemmtikraftur í fyrsta skipti. „Úff, já, ég hef aldrei verið skemmtikraftur áður á meðan Þjóðhátíð er,“ segir nýstirnið og hlær sínum vægast sagt dillandi og smitandi hlátri.

„Úff, ég hef sko aldrei verið jafn pepp! Bara mhmm. Bara smá stressaður. Samt ekki.“

Þegar Bassi er spurður hvernig hann sé stemmdur fyrir þessari frumraun sinni í Herjólfsdal stendur ekki, frekar en við var að búast, á svari. „Úff, ég hef sko aldrei verið jafn pepp! Bara mhmm. Bara smá stressaður. Samt ekki,“ segir Bassi á háu nótunum sem er ágætt þar sem hann þarf í raun að kalla yfir kynslóðabilið þegar blaðamaður spyr hverju áhorfendur megi búast við frá honum. „Þetta er a ho experience!“ segir Bassi og skellihlær. „Skilurðu?“

Þjóðhátíð er æði

Bassi bætir við að hann hafi hrokkið við þegar hann var beðinn um að skemmta á Þjóðhátíð. „Ég var alveg í sjokki. Ég var bara, sko, ókei. En síðan var ég bara geðveikt pepp því ég náttúrlega elska Þjóðhátíð.“

Bassa telst til að hann hafi farið einu sinni eða tvisvar á Þjóðhátíð. „Úff, það var klikkað. Ég ætla að fara alltaf á Þjóðhátíð,“ segir Bassi og auðheyrt að hann verður ekki einn á ferð að þessu sinni þannig að fastlega má búast við að félagar hans, Patrekur Jaime og Binni Glee, úr hinum vinsælu raunveruleikaþáttunum Æði á Stöð 2+, verði ekki langt undan.

„Ég er alltaf með gengið, sko,“ hlær Bassi og lætur fljóta með að Þjóðhátíð sé hans stærsta „gigg“ hingað til. „Þjóðhátíð er æði. Ógeðslega gaman.“

Ingi Bauer býst við því að verða borinn af sviðinu. Mynd/Aðsend

Verður borinn af sviðinu

Auk Bassa raðast nú inn rappararnir og plötusnúðarnir sem munu keyra tónlistina áfram á upphitunarballinu sem kennt er við húkkara á fimmtudagskvöldinu auk þess sem einhverjir halda taktinum gangandi áfram að kvöldi föstudagsins.

Auk Bassa láta Floni, Ingi Bauer, Dóra Júlía, Gugusar, Birgir Hákon, Luigi og Daniil að sér kveða á Húkkaraballinu. „Ég hef aldrei verið jafn spenntur. Að fá að koma til Eyja og standa á sviðinu sem DJ og horfa á Dalinn er tilfinning sem er ekki hægt að lýsa,“ segir Ingi Bauer. „Ég mun örugglega enda á að vilja spila til klukkan sjö svo það verður einhver að bera mig út af sviðinu!“

Birgir Hákon reiknar með geggjaðri stemningu. Mynd/Aðsend

Orkurík skemmtun

Ingi fær mögulega tvö tækifæri til þess að láta bera sig af sviðinu þar sem hann spilar einnig á föstudagskvöldinu ásamt meðal annarra DJ Snorra Ástráðs, Flona, Séra Bjössa og títtnefndum Bassa Maraj.

„Þetta verður geggjuð stemning ég verð yfir alla helgina og spila nokkrum sinnum,“ segir rapparinn Birgir Hákon sem hlakkar til að sjá alla og ætlar að mæta vel búinn til leiks með eitthvað af BH varningi í farteskinu til vonar og vara.

„Ég hlakka loksins til að geta spilað fyrir framan fólk eftir allt Covidið,“ segir Floni. „Verslunarmannahelgin verður fullpökkuð og Húkkaraballið verður fyrsti áfangastaður og þar verður mikil orka og mikil skemmtun,“ heldur Floni áfram og hljóðið í DJ Snorra er svipað.

„Það er alltaf gaman að koma til Eyja að spila, sérstaklega á Þjóðhátíð, og árið í ár verður engin undantekning. Þetta verður algjör stemning.“

Floni spáir mikilli orku og skemmtun á Húkkaraballinu. Fréttablaðið/Eyþór
Dóra Júlía þeytir skífum á Húkkaraballinu. Mynd/Aðsend