Tilveran er hreint út sagt æðisleg og ég nýt lífsins til hins ýtrasta,“ segir Bassi Vilhjálmsson, mörgum kunnur sem sjónvarpsstjarnan Bassi Maraj úr raunveruleikaþáttunum Æði með áhrifavaldinum Patreki Jaime frá Akureyri á Stöð 2.

„Við Patrekur erum bestu vinir. Hlutverk mitt í þáttunum kom þannig til að Binni Glee átti að fara með Patreki til Danmerkur en komst á endanum ekki. Ég fór því utan með Patreki og átti að vera mun minna í þáttunum til að byrja með, en á milli okkar Patreks urðu svo magnaðir straumar að þáttastjórnendur sem og áhorfendur vildu sjá meira af mér, og ég er ekki hissa. Ég er yst sem innst „a whole bad bitch“ og hef verið kallaður vandræðagemsi í þáttunum. Eflaust er ég svolítið klikk, en ég meina, hver kærir sig um að vera bara „basic bitch“?“ spyr Bassi sposkur.

Gælunafnið Maraj hefur beina tilvísun í átrúnaðargoð Bassa, bandarísk-trínidadísku tónlistarkonuna og kynbombuna Nicki Minaj.

„Ég var lengi með Nicki Minaj-aðdáendasíðu á Instagram, sem seinna varð aðalaðgangurinn minn og í kjölfarið festist viðurnefnið Bassi Maraj við mig,“ útskýrir Bassi.

Hann sýnir líf sitt án filters í raunveruleikaþáttunum Æði sem byggja á raunverulegri tilveru Patreks Jaime og vina hans.

„Í þáttunum er enginn tilbúningur né stuðst við handrit. Áhorfendur fá bara innsýn í líf okkar eins og það er,“ segir Bassi sem er 22 ára Reykvíkingur, uppalinn í Grafarvogi. Hann starfar dagsdaglega í leikskóla en vinnur líka að eigin tónlist.

„Það er ótalmargt spennandi í pípunum. Ég er með æðislega plötu í vinnslu og fyrsta lagið mitt, Bassi Maraj, verður frumflutt í seríu tvö af Æði. Ég sem alla mína tónlist sjálfur og er mestmegnis í því að rappa en er frekar dempaður og alveg klárlega næsta Leyoncé, með L-i,“ segir hann og hlær.

Bassi hér í glæsilegri skyrtu frá Fendi og með svarta, töff tösku frá Prada. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Hver er fyrsta minningin um að hafa verið fínn og flottur í tauinu?

„Það var þegar Emma systir keypti á mig slaufu þegar ég var að fara á ball.“

Hugsarðu mikið um hverju þú klæðist?

„Já, ég geri það í dag en gerði það ekki lengi vel. Ég fór svo að líta í eigin barm og áttaði mig á hvað útlit skiptir miklu máli, það er að segja að vera fínn til fara og vel til hafður.“

Hvaðan fékkstu tískuvitið?

„Tískuvitið er samantekt frá öllum vinum mínum en þó aðallega Klöru Lind og Patreki Jaime.“

Hvernig er þinn stíll?

„Stíllinn er „sexy casual“ og ég er alltaf klæddur eins og úti sé sól og sumartíð, þótt það sé fimbulkalt og hávetur.“

Finnst þér gaman að klæða þig upp á?

„Já, og ég er alltaf uppáklæddur nema ég sé að vinna eða í slökun heima hjá mér.“

Áttu eitthvað í fórum þínum sem þér er hjartfólgið og tengist tísku?

„Já, það er Tommy Hilfiger-úlpa sem er það síðasta sem pabbi minn gaf mér áður en hann féll frá.“

Hver er tískufyrirmyndin?

„Mín eina fyrirmynd og tískuviti er Nicki Minaj, einnig þekkt sem Onika Tanya Maraj.“

Hvar kaupirðu fötin?

„Mestmegnis í útlöndum en annars kaupi ég mér föt alls staðar, allt frá nytjamörkuðum til hátískumerkja eins og Fendi, sem er í uppáhaldi.“

Ertu með húðflúr og notar þú skartgripi?

„Ég er lítið fyrir skart en ég elska húðflúr og er með lítið letidýr á síðunni. Það heldur á skilti sem á stendur „Let’s fuck“ og er uppáhaldsflúrið mitt af öllum fjórum, en ég stefni á að fá mér fleiri.“

Hvaða ilm notarðu?

„Ég skipti mikið á milli Cloud frá Ariana Grande og Bleu frá Chanel.“

Í hvað ferðu þegar þú vilt stela senunni?

„Ég þarf enga flík til þess.“

Hver er uppáhaldsflíkin í fataskápnum?

„Fendi-kósíbuxurnar mínar eru þar alltaf í dálæti.“

Hvert er besta tískuráðið sem þér hefur hlotnast og hver gaf þér það?

„Það er „Þetta er of mikið!“, sem ég fæ að heyra frekar oft frá Emmu systur minni.“

Viðurnefnið Maraj festist við Bassa eftir að hann hélt úti aðdáendasíðu fyrir Nicki Minaj. Hér í skyrtu og buxum frá Gay Miami Vibe. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Hvað er það dýrasta sem þú hefur nokkru sinni keypt þér á kroppinn?

„Það er án efa Fendi Baguette-taskan mín. Annars kýs ég að líta ekki á færslurnar því þær geta alveg farið með mig. Ég loka bara augunum og borga.“

Hvaða flík ætti að banna?

„Ermar. Það eru rasslausu buxur efri líkamans og fer engum vel.“

Uppáhaldsmynstrið?

„Mér finnst hlébarðamynstur snilld og það hentar fyrir öll tilefni. Ég gæti hugsað mér að gifta mig í hlébarðamynstri.“

Fylgirðu tískudrós eða stælgæja á Instagram?

„Já, ég fylgi Queen Tamara, Nicki Minaj sem er vel þekkt fyrir lúkkin sín, Patreki Jaime og Binna Glee.“

Hvaða flík keyptirðu þér síðast?

„Kóngabláa Kenzo-peysu sem er æði.“

Hvað hefðirðu viljað vita um eigin stíl þegar þú varst yngri?

„Að láta mömmu ekki kaupa föt á mig. Ég verð að segja það en ekki samt drepa mig, mamma!“

Hvernig líður þér best?

„Þegar ég er búinn að hugleiða á kvöldin, er kominn í súperkósí náttföt og slappa af.“

Áttu flík sem þú ert þekktur fyrir?

„Já, buxurnar mínar með útvíðu skálmunum. Ég elska þær og allt útvítt.“

Hvaða frægu manneskju dreymir þig að fara í búðaráp með?

„Án efa Nicki Minaj.“

Hvaða áratugur heillar þig mest þegar kemur að tísku og hvers vegna?

„Það er níundi áratugurinn eða eitís, eins og það kallast. Ég er „80’s bitch“ og ef ég hefði vott af þolinmæði væri ég búinn að safna síðu að aftan.“