Þessa dagana er Eva Dögg að stofna minningarsjóð um föður sinn, Gísla Rúnar. Ætlunin er að deila úr honum nokkrum sinnum á ári til samtaka á borð við Píeta-samtökin, Sorgarmiðstöðina, Geðdeild Landspítalans og í raun til allra þeirra fjölda samtaka sem vinna að forvörnum gegn sjálfsvígum. Eva er líka ástríðukokkur og veit fátt skemmtilegra en að eiga góðar stundir við matarborðið með fjölskyldunni.

„Ég fór í detox til Gunnars Más Kamban í september og það var algjörlega ný upplifun fyrir mig því þar lærði ég mikilvægi þess að borða mat sem hækkar ekki blóðsykurinn um of. Í kjölfarið hjálpaði Gunnar Már mér að finna út hvaða mataræði það væri sem hentaði mér og fjölskyldunni. Það getur verið snúið að vera einn á ákveðnu mataræði og mun skemmtilegra að við getum öll verið á því sama. Ég hef stuðst við Miðjarðarhafsmataræði að hluta þar sem grænmeti er í meirihluta, olíur, ostar, egg og létt kjötmeti. Sjálf er ég ekki mikið fyrir nautakjöt og hef aldrei verið. Svínakjöt bragða ég nánast aldrei nema á jólunum.

Eftir detox fann ég hvað rétt mataræði hefur góð áhrif, ekki bara á líkamann og líkamsþyngd heldur aðallega á andlegu hliðina. Ég var á þessum tíma nýbúin að missa pabba minn og það skipti sköpum að hugsa um mataræði varðandi andlegu hliðina.

Á morgnana byrja ég oftast á volgum rauðrófusafa en ég er svo heppin að finnast rauðrófur góðar. Ég elska gríska jógúrt og fæ mér múslí, bláber og jarðarber. Um helgar geri ég betur við mig og fæ mér egg. Þá verður egg benedikt með avókadó og hollandaissósu oft fyrir valinu.“

Glæsilegur salatdiskur hjá Evu Dögg.

Litríkt salat og risarækjur

Eva reynir að hafa kvöldmatinn í fyrra fallinu því ef hún borðar seint finnst henni það bitna á svefninum. „Ég borða mikið salat en ég er hrifnust af vatnsmiklu salati þó svo að ég borði líka klettasalat og spínat. Ég elska fisk, að búa til nýja og spennandi rétti úr sjávarfangi. Risarækjur eru í miklu uppáhaldi og ég reyni að kaupa íslenskar ef það er í boði.

Ylvolgur rauðrófusafi

2 stórar rauðrófur

1-2 sítrónur (fer eftir smekk)

3-5 cm af engifer (fer eftir smekk)

Setjið í djúsvél

Litríkt salat & risarækjur með barnvænu tvisti

1 pakki Vaxa salatbakki (þessi með blóminu)

½ agúrka

½ rauðlaukur skorinn í þunnar sneiðar

jarðarber eftir smekk (eða mangó)

kóríander eftir smekk

kokteiltómatar (hálfur bakki – skornir)

ólífuolía – einhver góð ítölsk

Lakkríssalt frá Saltverk – gerir allt miklu barnvænna

ristuð fræ að eigin vali

Hráefni sett saman í skál, eða diska á hæðum þar sem hver og einn getur valið sér sitt salat og meðlæti sem hann vill fá með rækjunum. „Ég passa mig á því að bera þetta þannig fram að allir geti valið sér það sem þeim finnst best. Ég veit að allir borða salat, tómata, gúrkur og jarðarber og/eða mangó en ég set rauðlauk, kóríander og annað í sér skálar eða diska.“

Risarækjur

50 g smjör

1 pakki frosnar tígrisrækjur eða risarækjur (affrysta fyrir eldun)

raspaður engifer eftir smekk

1 japanskur hvítlaukur pressaður (þessir í körfunum)

½ chili smátt skorið

salt eftir smekk

kóríander stráð yfir ef fólk vill (má líka bera það fram sér)

Byrjið á því að bræða smjörið á meðalheitri pönnu. Síðan er hvítlaukurinn, chili-ið og raspaði engiferinn léttsteiktur upp úr smjörinu, eða þar til hráefnið er orðið mjúkt. Þá er risarækjunum bætt út í og þær steiktar í 3-4 mínútur, eða þangað til þær fá þennan fallega bleika lit. Í lokin er saltað eftir smekk og kóríander stráð yfir þegar rétturinn er borinn fram með fallegum hætti.

Rauðrófusafi og grísk jógúrt er frábær morgunverður.