Ótalmargir Íslendingar lögðu leið sína í Kaplakrika í Hafnarfirði í morgun til þess að bíða í röð í góða veðrinu eftir að dyrnar væru opnaðar. Ekki var um íþróttaviðburð að ræða heldur lagersölu barnafataverslunarinnar Bíumbíum.

„Við bjuggumst við mikilli ásókn en aldrei að röðin yrði svo löng eins og raunin varð,“ Dóra Sif Ingadóttir eigandi. Ljóst var að lagersalan yrði vinsæl strax eftir að byrjað var að auglýsa og var því ákveðið að hleypa inn í hollum vegna sóttvarna.

„Vegna fjöldatakmarkana gerðum við ráðstafanir og vorum með manneskju í dyrunum sem sá um að telja inn og hleypa inn í hollum framan af en svo jafnaðist þetta út eftir sem leið á daginn.“

Viðskiptavinir þolinmóðir í röð.
Mynd: Bíumbíum

Hún segir að ákveðinn hamagangur hafi verið til að ná bestu bitunum en þrátt fyrir það hafi allt farið vel fram. Allir hafi verið til fyrirmyndar og flestir farið sáttir heim.

Dóra segir erfitt að segja um hversu margir hafi beðið í röðinni en hún myndi giska á 400 til 500 manns þegar mest var.

„Ég hef oft haldið því fram að það sé ekki sterkasta hlið Íslendinga að standa í röðum en nú hef ég skipt um skoðun!“

Dóra segir að verslanir innanlands blómstri þessa dagana.

„Við erum með barnaföt frá vinsælustu merkjum Skandinavíu og okkar viðskiptavinir þekkja gæðin og það segir sig sjálft að gæði á góðu verði trekkja að. Ég held að verslun innanlands blómstri þessa dagana og það er mjög jákvætt og gott fyrir íslenska neytendur að geta nálgast gott vöruúrval í sinni heimabyggð.“