Í þættinum var rætt við leikara og aðstandendur þáttanna. Þar á meðal John Nettles sem lék Barnaby frá upphafi til ársins 2011 þegar Neil Dudgeon tók við.

Mörgum þykir merkilegt að þættirnir hafi lifað góðu lífi þótt skipt væri um aðalleikara. Í gegnum árin hafa margir af þekktustu leikurum Bretlands komið fram í Midsomer Murders og fæstir komið lifandi frá þeim enda eru morðin í þáttunum komin yfir 500. Meðal þeirra eru Óskarsverðlaunaleikkonan Olivia Colman, Henry Cavill sem lék Superman og Orlando Bloom.

Sýndir í 200 löndum

Midsomer er ekki til í alvörunni en flestar tökur eru í fallegum smábæjum í Oxford- og Buckinghamhéruðum. Fallegt landslag enskra smábæja setur mikinn svip á þættina. Morðin eru mörg svakaleg, fórnarlömbin deyja í mjúku súkkulaði, í tunnu sem er full af ormum eða sem fuglahræður og allt þar á milli. Hugmyndaflug handritshöfunda virðist óendanlegt. Það er þó aldrei langt í húmorinn sem gerir þessa myrku þætti svo áhugaverða, en þeir eru sýndir í 200 löndum. ■