Skáldsagan Dvergurinn frá Normandí eftir danska rithöfundinn Lars-Henrik Olsen er komin út hjá Bókabeitunni í þýðingu Steinunnar J. Sveinsdóttur.

Fyrir næstum þúsund árum fóru Normannar, afkomendur víkinga sem höfðu sest að í norðurhluta Frakklands (Normandí), með mikinn her yfir Ermarsund til að ná undir sig enska konungsríkinu. Sú innrás breytti Evrópusögunni og heimssögunni þegar fram liðu stundir. Áratug seinna, á árunum 1075 til 1077, var sagan af því hvernig þetta gerðist saumuð á rúmlega 70 metra langan hördúk eða svokallaðan „refil“ sem hefur varðveist í Bayeux í Frakklandi. Sennilega var refillinn, eitt merkasta listaverk sem til er frá þessum tíma, gerður í Englandi. Skáldsagan Dvergurinn frá Normandí fjallar um stúlkurnar sem saumuðu hann.

Steinunn J. Sveinsdóttir lífeindafræðingur þýddi bókina. Hún lést árið 2018 og þá tók eiginmaður hennar, Reynir Tómas Geirsson læknir og fyrrverandi prófessor, að sér að rita inngang og yfirfara þýðinguna, sem nú kemur út hjá Bókabeitunni. „Það tók Steinunni nokkur ár að þýða bókina. Ég fékk ráð og yfirlestur varðandi þýðinguna, og um efni inngangsins, frá sérfræðingum við Háskóla Íslands og í Þjóðminjasafni. Sjálfur hef ég lesið talsvert mikið um efnið og grandskoðaði refilinn í annað sinn árið 2019,“ segir Reynir Tómas.

Steinunn J. Sveinsdóttir lífeindafræðingur þýddi bókina.

Áhugavert efni

„Hér er hugljúf og grípandi skáldsaga um það hvernig tvær ungar stúlkur, Fífa og Emma, og tvær ungar konur, Gyða og Poppa, fá það verkefni í klaustri í Kent á Englandi að sauma refilinn undir stjórn Þóralds, sérstæðs dvergvaxins manns. Aðrar sögupersónur eru bitur engilsaxneskur höfðingi, abbadís klaustursins, myndarlegi hestasveinninn, biskupinn Ódó frá Normandí og fólkið í klaustrinu“, segir Reynir Tómas. „Eiginkona mín kallaði bókina gjarnan „barnabók fyrir fullorðna".

Lars-Henrik Olsen er þekktur fyrir unglingabækur sem hann byggir á sögulegum atburðum. Dvergurinn frá Normandí er ein þeirra og hlaut á sínum tíma verðlaun skólabókasafna í Danmörku.

„Sagan gefur innsýn í tíðarandann, klausturlíf, hugsanagang og erfitt líf þessara tíma og er fléttað inn í frásögn af raunverulegu atburðunum sem enduðu í mannskæðri orrustu við Hestengi syðst í Englandi haustið 1066. Hluti bókarinnar eru myndir í lit af öllum reflinum á sömu blaðsíðum og þar sem lýst er af hverju allt er saumað eins og það er. Í inngangi eru sögulegar staðreyndir raktar og sagt frá refilsaumi sem varðveittist aðeins á Íslandi langt fram eftir 17.öld,“ segir Reynir Tómas. „Efnið er líka áhugavert vegna þess að það er nýbúið að ljúka saumaskap á svokölluðum Njálurefli á Hvolsvelli, sem er meiriháttar verk, og á Blönduósi er verið að sauma refil með aðeins annarri aðferð um Vatnsdælasögu. Svo sagði Snorri Sturluson frá þessum atburðum í Heimskringlu og Haraldar sögu harðráða - frá öðrum sjónarhóli.“

Vinnur að enskri þýðingu

Reynir Tómas segir að til standi að flytja refilinn í Bayeux í fyrsta sinn úr landi og sýna hann í British Museum eða Victoria & Albert safninu í Lundúnum um tíma. Það var áformað árið 2022 en gæti frestast eitthvað. Reynir Tómas segist vera kominn nokkuð áleiðis með að þýða bókina á ensku með leyfi höfundarins og áhugi er fyrir hendi hjá enskum bókaútgefanda.